Leita í fréttum mbl.is

Útvarpspredikun á pálmasunnudegi.

Hér á eftir kemur útvarpspredikun mín sem flutt var í útvarpinu s.l. pálmasunnudag. Fyrst kemur guðspjallið sem lagt var út af. Njótið heil.

Guðspjall: 
Jóh 12.1-16

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, Amen.

Líf og ást, tryggð, þjónusta, þakklæti, auðmýkt, gjafir,  Ilmur, dásamlega góð lykt, heilbrigður maður sem risinn er upp frá veikindum sínum og dauða, fórnfýsi, takmarkalaus elska, undrun,  aðdáun, sigurgleði, fögnuður, væntingar og viska.

Öfund, hatur, reiði, gremja, svik, þjófnaður, launráð, myrkur og dauði.

Öllu þessum mætum við í textum guðspjalls Pálmsunnudagsins, sem að þessu sinni er tekið úr Jóhannesar. 

Þegar við íhugum atburði pálmasunnudagsins sjáum við yfirleitt fyrir okkur innreiðina í Jerúsalem þar sem Jesús Kristur kemur á asnanum inn um borgarhliðið og allir fagna og leggja klæði sín á veginn og  pálmagreinar sem sigurtákn eru. 

Upp í hugann kemur falleg ljósgeisla mynd eða sunnudagaskólamynd af Jesú á asnanum og  öllu fólkinu í kring um hann.

En nú má segja að guðspjalli þessa dags fylgi nokkur formáli, sem segir frá dvöl hans í vinahúsi og atburðum sem áttu sér stað í kvöldverðarboðinu þar. Þegar við lítum gestalista þessa boðs sjáum við að Jesús er þar auðvitað, lærisveinarnir líka en enginn þeirra sérstaklega nefndur nema Júdas Ískaríot.

Gestgjafarnir eru systurnar Marta og María og bróðir þeirra Lasarus, sem Jesús kallaði frá dauðanum til lífsins. 

Já, þarna eru þau þessi hópur í kyrrð kveldsins og friði og allur blær frásögunnar ber vott um einfaldleika, mikla elsku, hreinleika systranna og tengingu við lífið sjálft en hér hvílir þó skuggi yfir, sem kemur fram í orðum Jesú er hann segir fyrir um dauða sinn.  Orð sem komu til vegna ásakana Júdasar Ískaríots um bruðl og jafnvel skeytingarleysi.  

Yfir öllu þessu hvílir svo hið dimma ský grimmdar, einþykkni og valdagræðgi prestanna sem vilja Jesú dauðan og Lasarus líka til ómerkja kraftaverkið er Jesús reisti hann upp frá dauðum. 

Jesús er nú kominn að Jerúsalem, borg hinna grimmu valdsmanna en fólkið fagnar og vonar á hann, hleypur á móti honum eins og það búist við því að asninn sé gullasni en það er ekki svo. Því fyrsta verk Jesú var svo að fara inn í musterið og ryðja þar um koll borðum víxlaranna og síðan að predika með miklum áminningum og ádeilum inn í samtíma sinn. 

Og af hverju er verið að segja frá þessu núna svona löngu, löngu síðar á allt öðrum tíma og allt öðrum stað á hnettinum og það jafnvel í útvarpið.

Reyndar er sjálf frásagan svo mögnuð að hún ein og sér kemur okkur til að pæla í mörgu um mannlegt eðli og eigindir, svo sem góðmennsku, illgirni og margt fleira.  En það er þó ekki ástæðan heldur er hún sú að þessi: Jesús er Kristur. Sá er gekk veg sinn allan til písla og dauða á krossi en jafnframt til upprisunnar til þess að koma því til skila að Guð vill við okkur tala. Benda okkur elsku sína, eilífa lífið og gefa okkur reglu um það hvernig líf og starf Jesú Krists á að vera okkur öllum fyrirmynd í lífi hvers okkar og eins. Það er ástæðan 

Á þeim tíma sem við nú lifum er okkur hollt að íhuga vel hvers við væntum og hvað það skal vera sem á að móta líf okkar. Hvaða boðskapur á að vera okkur leiðarljós inn í myrkur samfélags sem hrundi eins og borð víxlaranna í musterinu forðum.

Hvernig ætlum við að ganga fram á veginn sem einstaklingar og sem þjóð.  Hver er sú viska sem við ætlum að fara eftir á komandi mánuðum og árum hvaða orð á að verða grunnur hinnar ný byggingar sem hýsa skal samfélag okkar? 

Í Guðspjallinu getum við valið á milli tveggja lausna.  Önnur vísar til græðgi svika og lýðskrums, en hin vísar til auðmýktar, þolinmæði og fórnfýsi. 

Margir hrópa nú: "Mín leið er best allt annað er vitleysa og svik" og enn aðrir kalla: "Hér er ég með lausnina minn asni er gullasni."

En ef við setjumst niður og gefum okkur tóm til íhuga í heiðarleika og kristilegum anda spurningar eins og þessar.  Hvað er best fyrir fjölskyldu mína og framtíð?  Hvað er best fyrir heildina? Hvað er best fyrir þjóð mína?  Þá koma upp svör sem fela í sér erfiðleika og glímu en jafnframt felast í þeim frelsun frá vandanum að lokum því að þessi svör koma úr sjóðum andlegra gæða og hirslum kærleikans.

Það er nauðsynlegt að gagnrýna og benda á það sem betur má fara en þegar slíkt er gert verðum við að vera heiðaleg og sanngjörn meðvituð um það að gagnrýnin eigi að verða til uppbyggingar og blessunar en ekki til þess að hugsa um eigin hag eins og Júdasi fórst í kvöldverðarboðinu, hann þóttist bera hag hinna fátæku fyrir brjósti sínu en ásældist sjálfur sjóðinn. 

Það er hvatning kirkjunnar að við gefum nú gaum að lífi Jesú Krtists boðskap hans og kærleika og að við látum það allt þvo og næra huga okkar og hjarta. Að við látum það siðferði er hann boðaði okkur móta samfélag okkar á leiðinni  út úr vandanum svo við getum komið heimilunum og þjóðarskútunni á réttan kjöl.  Til þess að við getum eignast samfélag sem öðrum verður til fyrirmyndar og fátækum til hjálpar.

Um þessar mundir ganga þúsundir ungmenna að altari kirkjunnar og staðfesta skírnarsáttmála sinn. Önnur taka við blessun trúfélags síns og enn önnur fermast borgaralegri fermingu. Stærstur hluti heils árgangs hér á landi lifir nú tímamót í lífi sínu eignast stund sem geymist í hjartanu. 

Og foreldrarnir allir eiga þá bæn eða ósk í hjarta sínu að barn þeirra muni eiga gott og farsælt líf fyrir höndum og að barnið þeirra muni verða öðrum til góðs á lífsveginum.  Og spurt er hvað getum við gert til þess. Við bendum þeim á boðskap trúarinnar og vegi hinna göfugu dyggða. Það hljótum við að gera ekki síst þegar við okkur blasir sú hryggilega staðreynd að margt er gert til að afvegaleiða þau.

Já, hver er mesta hættan sem blasir við börnum þessa lands. Eru það lítil auraráð, minna af blandi í poka eða betri nýting á fatnaði öllum. Við vitum að svarið við því er nei.

Mesta hættan felst í þeirri vá sem í peningaþorsta, alkahóli og öðrum vímuefnum býr.

Hvað er sorglegra en að vita af unglingspilti eða unglingsstúlku sem tæld hafa verið af blekkjandi auglýsingum og skrumi drekka sinn fyrsta bjór eða teyga í lungu sín kannabisreyk, sjúga í nef sér hvíta efnið eða gleypa töflur sem ummynda og afskræma umhverfi og tilfinningar allar? 

Forsætisráðherra þjóðarinnar tilkynnti í gær áform um að byggt verði nýtt fangelsi á Íslandi. Vissulega er það brýnt og að mörgu leyti mannúðarmál sé hugsað til þess aðbúnáðar sem allmargir æskumenn þessa lands hafa búið við og gæslumenn þeirra.

En þessi brýna nauðsyn verður því miður rakin til aukinnar áfengis og fíkniefnaneyslu, sem einnig leiðir til margrar annarrar ógæfu en fangelsisvistar.

Við skulum biðja þess að ekkert þeirra ungmenna sem nú vaxa úr grasi eigi eftir að sofa á bak við luktar dyr þessa fangelsis né nokkurs annars.

Líf án áfengis og líf án annarra fíkniefna er til fyrirmyndar. Það var stórkostlegt að vera vitni að viðtali við Jóhönnu Guðrúnu söngkonu okkar þar sem hún tjáði að hún væri bindindiskona og að hún þyrfti ekki að drekka eða dópa eins og sagt er til þess að finna gleðina í lífinu og ótalmargir aðrir lifa slíku lífi í gleði og þakklæti.

Bjór, brennivín eða önnur fíkniefni gefa hvorki sanna ánægju né fegurð.

Kristin trú er fagnaðarboðskapur og sá kraftur, þakklæti og gleði sem sú trú gefur er hyrningar steinn þess lífs sem við óskum börnum okkar.  

Nú er pálmasunnudagur og við heyrðum um hina fallegu þjónustu sem María veitti Jesú með þvi að bera smyrslin á fætur honum og þerra með hári sínu. Sú þjónusta og ást fyllt allt í kring um þau góðum ilmi og við heyrðum líka hvernig mannfjöldinn fagnaði honum en hafnaði síðan af því að auðmýktina og trúna skorti. 

Í huga okkar og hjarta skulum við á þessum pálmasunnudegi ganga til móts við Jesú Krist taka á móti kærleika hans og þjóna Guði í einlægni lífi okkar sjálfra til blessunar og þjóðinni til góðs.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband