Leita í fréttum mbl.is

Er heimurinn góður eður ei?

Er heimurinn vondur eða góður?

Þetta er pælingin hjá unga fólkinu á heimilinu okkar (12 og 14) þessa dagana og þá ekki síst vegna krísunnar sem er í gangi í landinu. 

En nú vorum við hjónin að horfa á þátt um hvernig börn eru svívirt víða um heiminn, seld misnotuð og nauðgað.

Ég lagði fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar þegar ég var á þinginu í den og á hún fullt erindi enn í dag ef ekki frekara svo ég læt hana koma hér á bloggið.

Reyndar staðfærði Vestnorræna ráðið þessa tillögu og gerði hana að sinni og hefur hún nú verið samþykkt í þjóðþingum landanna þriggja. Þ.e. fyrir einu ári.

En hér kemur svo tillagan:

128. löggjafarþing 2002–2003.Þskj. 1256  —  707. mál.  

                               Tillaga til þingsályktunar 

um gerð námsefnis um hlutskipti kvenna um víða veröld. 

Flm.: Karl V. Matthíasson, Þórunn Sveinbjarnardóttir,Björgvin G. Sigurðsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir. 

Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hlutast til um gerð fræðsluefnis fyrir grunnskólastig um misjafnt hlutskipti og kjör kvenna um víða veröld.                                                         

                                                                 Greinargerð.

Alþekkt er hér á landi hversu mikill munur hefur verið á réttindum kvenna og karla. Hægt er að nefna mörg hryggileg dæmi því til stuðnings. Viðhorf til kvenna hefur löngum verið í þá veru að konan eigi ekki að njóta sama réttar, sömu virðingar og sömu sæmdar og karlinn. Til dæmis sést þetta vel þegar við lítum í sögu kosningalöggjafar og mennta­mála. Núgildandi lög um jafnrétti kynjanna eru góðra gjalda verð en nauðsynlegt er að allir fái inngróna tilfinningu fyrir því að konunni ber sama staða og karlinum í samfélagi voru. Þá fyrst verður um raunverulegt jafnrétti og réttlæti á milli kynjanna að ræða.Víða um veröldina er hlutur kvenna mjög bágborinn og í sumum löndum ríkir mikil kvenna­kúgun og konur ganga sums staðar kaupum og sölum og eru jafnvel þvingaðar í vændi á Vesturlöndum og víðar.Sífellt er bent á slæma stöðu kvenna í mörgum þróunarríkjum og hversu illa er farið þar með konur. Nefna má mýmörg dæmi um umskurn kvenna og fleira. Frægt viðtal við sóm­ölsku fyrirsætuna Waris Dirie vakti margan af værum blundi og einnig skelfilegar fréttir um konur í Bangladess sem brenndar höfðu verið í andliti með sýru vegna þess að þær hrygg­brutu biðla sína.Á undanförnum missirum hefur umræða aukist um nauðganir, vændi, klám og kynferðis­legt ofbeldi gegn börnum og konum. Er það ekki síst vegna fjölgunar ákæra og brota í þess­um efnum. Margir telja að tilkoma netsins og aukin og fjölbreyttari fjölmiðlun eigi nokkurn þátt í þessu, þ.e. að virðing fyrir lífi og líkama annarra hafi farið þverrandi og einnig að kærleiksástin njóti ekki sömu viðurkenningar samfélagsins og fyrr. Hægt er að nefna mörg dæmi um sora sem unglingar og jafnvel börn hafa verið vitni að á þessu sviði. Ljóst er að slíkt hefur slæm mótandi áhrif á þá sem á horfa og getur bjagað og afskræmt það sem fallegt er og fagurt í augum Guðs og manna.

Við þessu ber að sporna af alefli. Það verður einungis gert með viðhorfs­breytingu og gæti gerð námsefnis um misjöfn kjör kvenna um víða veröld verið lóð á vogar­skálarnar. Það ætti líka að vera vel til þess fallið að vekja börnin almennt til umhugsunar um það hversu skammt maðurinn er kominn á leið sinni í átt til réttlætis og einnig ætti slíkt efni að auka kærleika barna og unglinga í garð hvers annars og benda þeim á hversu hver ein­staklingur er mikilvægur í því að skapa betri heim með kærleiksríkri framkomu.

Stöndum saman.

Kalli Matt


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband