Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

08 07 07

Það hefði verið ánægjulegra fyrir einn þingmann sem er að byrja setu í stjórnarliði að koma að betra búi byggðarmála en raunin er.

Ég verð að segja það, að aldrei bjóst ég við því þann daginn, sem við mynduðum ríkisstjórn, að hinn gríðarlega mikli niðurskurður á þorskveiðiheimidum yrði staðreynd.

Mér var flullkunnugt um að ástandið í sumum byggðum Norðvesturkjördæmis væri orðið bágborið og ljóst að taka yrði til  hendinni, ef við ætluðum að verja þessar byggðir miklu hruni.   Og nú kemur þetta ofan á allt saman.  Ég get ekki annað sagt, en að ég beri ugg í brjósti,  vona þó að okkur takist að vinna á vandanum.

Nú hefur ríkisstjórnin komið með yfirlýsingar í þeim anda, að  gripið verði til  varnaraðgerða. Reyndar lá það í pípunum eins og fram hefur komið í tengslum við störf hinnar svokölluðu Vestfjarðarnefndar. En í ljósi þess sem við blasir hljótum við að bæta enn frekar í. 

Ég treysti því einlæglega að miklu mun meira verði lagt í það rannsóknar- og tilraunastarf starf er lýtur að hvers kyns eldi sjávarfangs.

Nú þegar eru í nokkrum fjörðum Vestfjarða kvíar með eldisþorski. Það starf sem hefur verið unnið er mjög mikilvægt og það verður að efla. Er ekki mögulegt að ala nokkur þúsund tonn af þorski í þessum fjörðum og fleirum? Til að fá svör við þessu verðum við að rannsaka og læra. 

Hið sama má segja um kræklingarækt og jafnvel ræktun á þangi sem ég veit um að frumkvöðlar í Aranrfirði hafa komið að. Eins og er má segja að þetta sé á  byrjendastigi. 

Í mínum huga er rétt að auglýsa nú þegar eftri líffræðingum, fiskeldisfræðingum , netagerðamönnum og auðvitað fleira fólki til að vinna að þessu öllu saman. Hér koma líka aðrir að, sem gætu sinnt öðrum störfum í tengslum við þetta. Svo sem trillukarlar og fleiri, sem þyrftu að vinna að markaðstörfum.  Og svona má lengi telja.

Svo vil ég bæta því við, að hluti þeirra fyrirheita sem gefin hafa verið um aukið hafrannsóknarstaf kemur í mínum huga að sjálfsögðu til með að vera unnið í umhverfi Norðvesturkjördæmis annað er auðvitað ekki hægt.

Á höfuðborgarsvæðinu eru stanslaus túrismi allt árið og við liggur að nokkur hótelherbergi séu tekin í gagnið á hverjum degi. Á  landsbyggðinni stendur ferðamannatíminn miklu skemur, ferðamönnum fer þó fjölgandi. Það er auðvitað grundvallaratriði, að í landinu öllu sé til staðar gistirým er allar tegundir ferðamanna sætta sig við. Hótel sem ekki býður uppá herbergi með sturtu og klósetti eru að sumra mati ekki ásættanleg. Þetta er bara svona.

Ætla ekki að fjölyrða frekar um þetta en það er ljóst, svo dæmi sé tekið, að svoleiðis hótel verður að vera til staðar á Bíldudal eða í Tálknafirði eða Patró. Að byggja slíkt hótel er að mínu viti þróunarstarf sem krefst þolinmóðs fjármagns. Öll önnur ferðaþjónusta á landsbyggðinni verður líka að búa við betri aðgang að fjármagni. Við verðum að hætta að hugsa þannig, að allt eigi að skilja milljóna gróða daginn eftir að klippt er á borðann. Og við verðum líka að átta okkur á því að samvinna og samstaða byggða og fyritækja verður líka að vera meiri en stundum hefur verið.

Í haust verður opnuð framhaldsdeild á Patreksfirði.  Ég bind vonir við það, að vel verði lagt í það starf og að verkefnið "opinber störf án staðsetningar" fái líka byr undir báða vængi. Þetta og margt fleira sem hægt væri að hrinda í framkævmd - líka með þátttöku einkageirans - var á döfinni í mínum huga og margra annarra.  Jafnvel þó enginn niðurskurður hefði orði á þorskveiðum má ljóst vera að mjög brýnt er að auka fjölbreytni í atvinnulífi sjávarbyggðanna það er einfaldlega krafa tímans.

Að stórbæta samgöngurnar er svo auðvitað aðgerð sem styrkir byggðirnar og gefur þeim hærri búsetueinkunn ásamt því að koma á gemsasambandi og háhraðatengingum.  Læt hér staðar numið, ekki vegna þess að hugmyndir séu búnar úr huga mínum heldur vegna þess að skrif þessi eru orðin frekar löng. 

Vil þó í lokin nefna Núp í Dýrafirði. Það er fullt af fólki sem gæti eignast þar nýtt og betra líf í einum fegursta firði veraldar. Setjum þar á laggirnar uppbyggingarstarf fyrir nokkra þeirra ungu Íslendinga sem lotið hafa í lægra haldi fyrri Bakkusi, yfirþjónn hins illa.  Slík starfsemi allt árið myndi kalla á fjölbreytt störf og efla líka  starf sjúkrahússins á Ísafirði.

Ég hef nú setið nokkra þingflokksfundi með félögum mínum í Samfylkingunni og það hefur verið mér vonarefni að finna hjá hópnum, þingmönnum og ráðherrum aðeins góðan vilja til að koma nú að með myndarlegum hætti til þess að efla og verja byggðirnar landi og lýð til góðs.  

Stöndum saman

Kalli Matt


« Fyrri síða

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband