Leita í fréttum mbl.is

Grundvallabreytinga er þörf.

Grundvallabreytinga er þörf.

Hver eru þau grundvallaratriði sem við ætlum að breyta í landi okkar til þess að við getum náð aftur því  trausti og þeim trúnaði sem við höfðum, áður en við útvíkkuðum hina íslensku frjálshyggju? Hvað þurfum við að gera til að venjulegir íslenskir borgarar geti treyst því að við förum rétta leið í endurreisninni sem nauðsynleg er í landi okkar?  Margir keppast nú við að tala um þann siðferðisbrest sem orðið hefur í landinu og telja að regluverkið hafi brugðist, eftirlitsstofnanir  og svo framvegis.  Nú ætlum við að breyta stjórnarskránni, nú ætlum við að breyta kosningalöggjöfinni og við ætlum að breyta svo mörgu sem leiðir til þess að allt verður nýtt og betra. 

Hver á fiskinn í sjónum?

 

Já þetta er nauðsynlegt og auðvitað eru orð til alls fyrst. En það er ekki nóg að breyta setningum í stjórnarskránni og lagaákvæðum ef ekkert verður svo gert með það. Hverju breytir það að hafa ákvæði um að helstu náttúruauðlindirnar skulu vera í eigu þjóðarinnar ef framkvæmd þess er sú að örfáum er færð auðlindin nánast að gjöf og ómögulegt er fyrir áræðna menn að hefja sjávarútveg.  Það er kúgun.  Hverju breytir það, að hafa þann rétt og þá stöðu í  „réttlátu og frjálsu“ þjóðfélagi að geta vísað málum til mannréttindadómstóla eða mannréttindanefnda ef dómar þeirra eða sjónarmið eru svo hunsuð.

 

Um þetta hljótum við að hugsa mjög alvarlega. Sérstaklega nú, þegar við erum nýbúin að samþykkja hinn göfga barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Því á sama tíma og það var gert hvílir á íslensku ríkisstjórninni ályktun um brot á mannréttindum. Við þessum úrskurði hefur ekki verið brugðist nema með fyrirheiti  um stofnun nefndar sem á að koma með tillögur til breytinga á  framkvæmd laga um stjórn fiskveiða. Það bendir til þess að svæfa eigi málið. 

 

Má venjulegt fólk reyna að bjarga sér?

 

Við getum til dæmis sett upp mynd af atvinnulausum foreldrum þriggja barna. Foreldrum sem hafa möguleika til að róa til fiskjar á fjögurra tonna trillu út á flóann en mega það ekki nema gegn hárri leigu fyrir hvert kíló fiskjar sem þau veiða.  Leigugjald sem rennur í vasa „eigenda kvótans“ Með slíkri lagframkvæmd göfugra laga og skuldbindinga er verið að brjóta bæði gegn börnunum og foreldrunum.

  

Breytum kvótakerfinu.

 

Það getur verið auðvelt og gaman að vera í stórum ríkisstjórnar flokki þar sem flestir brosa hver fram í annan af stolti yfir mætti sínum og velgengni. En það er ekki gaman ef maður í hjarta sínu veit að það er ekki verið að taka á grundvallarmálum með hugrekki og festu. Frjálslyndi flokkurinn hefur ávallt bent á óréttlætið sem felst í kvótakerfinu og vill auka aðgang þjóðarinnar að fiskimiðunum. Því miður hafa þessi sjónarmið orðið undir í umræðunni sérstaklega meðan allt flaut í ilmandi hunangi og rjóma. Þegar til framtíðar er litið verða menn að hafa kjark til að ráðast í nauðsynlegar breytingar á þeim þáttum þar sem upphaf efnahagsþrenginganna er að leita og færa til betri vegar í réttlætis átt.  Og þessar breytingar verður að ráðast í ekki síðar en núna.  Venjulegt fólk verður að fá leyfi til að bjarga sér með því að nýta sér auðlindir hafsins.  Annars eykst því miður bilið milli ríkra og fátækra, en nú þegar er það orðið allt of mikið.

 

Stöndum saman.

Kalli Matt

.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband