Leita í fréttum mbl.is

Þjóðarsátt um skuldir.

Ég tel að tími sé til þess kominn að við setjumst niður og komumst að niðurstöðu sem er sanngjörn og réttlát. Niðurstöðu sem kemur ekki í bakið á þjóðinni eftir stuttan tíma.  Sjá eftirfarandi grein mína í  morgun.

http://www.visir.is/thjodarsatt-um-skuldir-/article/2010543273765

stöndum saman.

Kalli Matt


mbl.is Samráðsvettvangur nauðsynlegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsátt um skuldir.

Þjóðarsátt er orð sem oft hefur verið notað á síðustu mánuðum og ekki að ástæðulausu. Eftir hrunið eru margir ósáttir enda hefur hallað á fjölda fólks og því er þörf á þjóðarsátt.

Nú hefur Hæstiréttur kaghýtt lánafyrirtæki með dómi sínum um gengistryggð lán. Í framhaldi af þessu hafa Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn komið með leiðbeinandi vinnulag um breytt greiðslufyrirkomulag lánanna. Og allt logar nú út af þessum „leiðbeinandi" gerningi.

Ég er viss um að flestir sem tóku gengislánin hafi alls ekki hugsað sér að þurfa að greiða eins mikið og þeir hafa verið krafðir um. Ég er líka viss um að þeir hafi ekki heldur reiknað með að greiða jafnlítið og dómurinn kveður á um. Samt eru margir skuldarar ófúsir að hvika frá dómi Hæstaréttar og sjá enga ástæðu til koma til móts við lánafyrirtækin eftir þá óbilgirni sem að minnsta kosti einhver þeirra hafa sýnt og á tíðum fyrirlitleg vinnubrögð sem fréttir hafa greint frá.

Fram undan er löng og ströng umræða og málaferli á málaferli ofan. Ríkisstjórnin er farin að gefa í skyn að samfélagið ráði illa við niðurstöðu dómsins og þess vegna hafi Seðlabankinn og FME brugðist svona við. Og auðvitað vekur það manni ugg ef sækja þarf meiri pening til ríkiskassans, með mikilli hættu á því að teygja velferðarkerfisins slitni.

Þess vegna spyr ég: Getum við búið til einhvers konar þjóðarsátt um skuldirnar. Geta skuldarar þessa lands fallist á það að öll lán til húsnæðiskaupa og bílakaupa verði aðeins einnar gerðar með lagasetningu? Væri til dæmis hægt að lækka verðbótalánin og hækka gengislánin á einhvers konar miðlínu sem dregin er á milli verðtryggðu lánanna og gengislánanna eftir dóm Hæstaréttar.

Þau átök og endalausu málaferli sem framundan eru um öll þessi lán geta orðið að ógn við allsherjarreglu og frið í samfélagi okkar.
Ég hvet til þess að leitað verði sátta og samkomulags í mikilli einlægni og að Alþingi og ríkisstjórn geri sitt til þess að vinna að því í góðu samráði við þau samtök sem stofnuð hafa verið til varnar heimilum og skuldurum þessa lands. Já, mikið held ég að margir yrðu fegnir ef hægt væri að klára þetta mál með ásættanlegri og viðráðanlegri lausn sem áreiðanlega er til. Að við gætum gert alvöru þjóðarsátt í þessu máli.

stöndum saman

Kalli Matt


Bænahópur nokkurra miðaldra karla.

Ég er í hópi nokkurra miðaldra karla sem koma saman einu sinni í viku í  Guðríðarkirkju  til bæna.

Við biðjum fyrir landi okkar og þjóð, við biðjum fyrir friði og sátt og við berum líka fram bænir sem aðrir hafa óskað eftir að við leggjum fram. Það eru m.a. bænarefni fyrir sjúkum, vanheilum og fyrir fólki sem býr við hvers kyns angur. 

Þér er líka velkomið að leggja fram þín bænarefni og munum við bregðast við þeim með jákævðum hætti.  Þau er hægt að senda á netfang mitt kvm@simnet.is eða bara hringja í mig í síma 8686984. (Og auðvitað er allt þetta í trúnaði gert).

Jesús segir: "Biðjið og yður mun gefast leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða"

Já styðjum hvert annað og

stöndum saman

Kalli Matt


Atvinnuleysi = landflótti.

Til að koma í veg fyrir landflótta verður að skapa atvinnu. Atvinnutækifæri Íslendinga felast í auðlindum Íslands og menntun. Auðlindir landsins skipta hér mjög miklu máli. Mikilvægt er að auka aðgengi  að hafinu.  Þó ekki væri nema að gefa frjálsar handfæraveiðar á minni trillur. Fá tonn skipta miklu máli fyrir litlar atvinnulausar fjölskyldur.

Orka er næg á Íslandi og væri hægt að framleiða mun meira úrvals grænmeti en við gerum nú og jafnvel selja úr landi vegna hagstæðs gengis og samkeppnishæfrar orku.

Kræklingarækt er farin af stað en hana verður að efla með ráðum og dáð því mikill markaður er fyrir þá skel í Evrópu og víðar.  Hið sama má segja um ýmsan iðnaðarvarning.

Ferðaþjónustan og auglýsingafyrirtækin í kring þann bransa njóta skilnings ríkisins og mætti örlæti ríkisins gagnvart öðrum greinum vera slík. 

Þó gott sé að hafa stór og mikil fyrirtæki er líka nauðsynlegt að styðja við hin smærri. 

Við verðum líka að koma landbúnaðinum út úr kindinn láta unga menn fá jarðir sem ríkið á eða bankarnir hafa eignast og skapa sér þar atvinnu tækifæri við repjurækt og fleira.

Í allri umræðunni í kjölfar hrunsins var mikið talað um að auðlindiri lands ættu að vera í eigu þjóðarinnar líka hafið. Vinstri græn töluðu mikið um það, en lítið tala þau um það núna. Eru hópar innan Vg sem vilja ekki breyta kvótakerfinu?

Og nú er verið að tala um að vatnið verði einkaeign. Verði það að veruleika eins og Framsókn og Sjálfstæðismenn þrá þá ætti ríkisstjórnin að fara að hugsa alvarlega sinn gang. 

Aukum framleiðslu atvinnutækifæri á Íslandi þannig skapast meiri vinna þó gróðinn verði ekki svaka mikill.  Margir ríkisstarfsmenn gætu örugglega hugsað sér að starfa annars staðar ef þeir fengju tækifæri til þess. 

Að lokum það er mikið af atvinnulausu fólki í Reykjavík margt af því fólki gæti veitt fisk í Faxaflóanum en því miður hann er lokaður.

stöndum saman.

Kalli Matt

 


mbl.is Óttast landflótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bænarefni þín.

Bænahópur nokkurra karla kemur saman einu sinni i viku í Guðríðarkirkju.  Viljir þú að þessi bænahópur biðji fyrir einhverju sem liggur á hjarta þínu getur þú sent bænarefni á netfang mitt kvm@simnet.is eða hringt þau inn í síma 8686984. 

Jesús segir: "Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða"

Stöndum saman.

Kalli Matt


Grunnskólanum er lokið hjá Pétri.

Það var ánægjulegt að vera við skólaslit 10. bekkjar Seljaskóla í dag. Glæsilegur og flottur hópur ungmenna sem ganga nú út i sumarið, sumar lífsins.

Pétur sonur minn var í þessum fallega hópi framtíðar landsins. Ó, hve bæn mín er heit að allt gangi honum í haginn í lifinu og að hann verði heilbrigður og góður maður. Þessa sömu bæn á ég til handa öllum hinum unglingunum í skólanum og reyndar öllum öðrum ungmennum þessa lands.

Þórður Kristjánsson skólastjóri flutti frábæra, hvetjandi ræðu af þessu tilefni og vil ég þakka honum fyrir gott starf í þágu barna minna. 

Já, lífið hvað er það? því hefur verið svarað á marga vegu en hver sem svörin eru þá verðum við að lifa því.

Mesta hættan sem steðjar að þessum ungmennum er bjórinn og brennivínið sem margir munu reyna að koma ofan í þetta yndislega fólk strax í sumar.

Ófyrirleitnar auglýsingar í blöðum, útvarpi og sjónvarpi hafa þennan tilgang. Já miklum peningum verður varið til að veiða þau í  bjórfenið illa, sem deyfir dómgreind, skapar slys og spillir ástinni.

Verndum unga fólkið okkar og

stöndum saman.

Kalli Matt


Smjörklípa sannleikans.

Mogginn í dag er helgaður sannleiksleitinni miklu um hver sagði hvað, hvenær og hvort í sambandi við laun seðlabankastjórans. 

Þetta er djúp og mikil rannsóknarblaðamennska. Sannleikurinn mun gera okkur frjáls og það er göfugt að leita sannleikans. Ég sé fyrir mér þá miklu sannleiksást og -þrá sem umvefur ritstjórn Mbl.

Ég vona að útgerðin sem rekur Mogann afli nægs fjár til að sigla inn í hina helgu dóma sannleikans í þessu máli og svo þegar þeirri sjóferð er lokið legg ég til að Mbl komist að sannleikanum um það, hvers vegna íslensk útgerð sem hefur búið í aldarfjórðung við "besta kvótakerfi í heimi", skuldi svo mikið sem raun ber vitni. Þrátt fyirr mjög góð verð á fiskafurðum undanfarin ár, líka meðan gengið var hátt á krónunni.

Stöndum sman.

Kalli Matt


mbl.is „Aum smjörklípa“ Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarristar allra landa sameinist !

Ef ég væri stjórnmálafræðingur myndi ég skýra út sigur Besta flokksins með eftirfarandi hætti: 

þegar fólk upplifir það að valdhafar sem buðu því gull og græna skóga fyrir kosningar brugðust þá verður það að Gnarristum.

Þegar fólk upplifir að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar þiggja milljónir eða meira og alls kyns fríðindi frá öflugum hagsmunasamtökum og fyrirtækjum verður það að Gnarristum.

Þegar fólk upplifir það að land þess hefur verið mergsogið rænt og ruplað og ræningjarnir halda auðlindum óáreittir verður það að Gnarristum.

Þegar fólk skuldar mikið og skuldirnar verða bara hærri og hærri þrátt fyrir endalusar greiðslur verður það að Gnarristum.

Þegar hagfræðingar gefa fyrirheit um verðhjöðnun og lækkandi lán en allt fer á annan veg verður það að Grnarristum.

Þegar fólk upplifir það að venjulegir alþýðuþingmenn (þingmenn á plani) hafa ekkert að segja vegna "skynsemdarhyggju" ráðherravaldsins verður það að Gnarristum.

Kannske má segja að megineinkenni Gnarrista sé að þeir eru ekki "plöggaðir".

Stöndum saman.

Kalli Matt

 


Réttindalausir Þingeyringar.

Þingeyringar verða að fá að veiða fisk, gera út frá höfn sinni, það er siðferðislegur réttur.

Kvótakerfið hefur leikið þessa byggð illa að ekki sé meira sagt.

Fréttin í sjónvarpinu í kvöld sagði allt sem segja þarf um það hve byggðafjandsamlegt kvótakerfið er og mannfjandsamlegt líka.

Samkvæmt mannréttindanefnd SÞ er framkvæmd laga á lögum um stjórn fiskveiða brot á mannréttindum, og atvinnuréttindum.  "Strandveiðarnar"  breyta engu um það.

Það er mjög mikilvægt að loforð ríkisstjórnarinnar um breytingar á kvótakerfinu standist og að frumvarpið um breytingar verði lagt fram sem allra, allra fyrst. Því nýja kerfið verður að hafa komist í fullan gang a.m.k. einu ári fyrir næstu alþingiskosningar. 

Vonandi heyrum við eitthvað nýtt frá ríkisstjórninni á sjómannadaginn, það myndi örugglega gleðja þingeyringa og marga fleiri.

Stöndum saman.

Kalli Matt


Smá pæling í kjölfar kosninganna.

Eftir hrunið lagði Samfylkingin mikla áherslu á persónukjör og aukna þátttöku og aðkomu almennings að ákvarðanatöku í samfélaginu og er það í samræmi við stefnu hennar.  

Þegar ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs tók við eftir fall ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var mikil umræða um lýðræðismálin og frumvörp um breytingu á stjórnarskrá og kosningalöggjöf sem fólu í sér aukið lýðræði lögð fram. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn fóru auðvitað í málþóf  og hvorki gekk né rak.

Svo var kosið og Vinstrhreyfingin grænt framboð  og Samfylkingin þurrkuðu Frjálslynda flokkinn í Norðvestur kjördæmi út með stórkostlegum yfirlýsingum í sjávarútvegsmálunum  og loforð voru líka gefin um aukið lýðræði. 

Og þjóðin treysti loforðunum og kaus Samfylkinguna og Vinstrihreyfinguna grænt framboð til að koma á umbótum.

En auðvitað er mikið að gera hjá ríkisstjórn í landi sem hefur verið rænt 1000 milljörðum.

Allt þetta segir okkur að "þingmenn á plani" hljóti að fá aukin verkefni, til þess að lýðræðismálin komist fyrr og betur á dagskrá.

Tíminn styttist til að koma téðum umbótum í gegn því eðli sínu samkvæmt munu eignarhaldsflokkarnir Framsókn og Sjálfstæðismenn gera allt til að tefja og hindra þetta eins og sannaðist rétt fyrir síðustu alþingiskosningar.

Það má reikna með því að ferlið  takai a.m.k. tvö þing, tala nú ekki um ef líka skal efna kosningaloforðin um sjávarútvegsmálin.

Vilji Samfylkingin rétta hlut sinn eftir kosningarnar hlýtur hún að slá í bossann á Vg varðandi sjávarútveginn og reyndar líka  lýðræðismálin. 

Úrslit kosninganna í "nýframboðs" kjördæmunum eru klár skilaboð um þetta.

Aukum lýðræðið sem fyrst, verum hugrökk og

Stöndum saman

Kalli Matt

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband