Leita í fréttum mbl.is

Af virðingu og ást við lífið.

Ég skrifaði eftirfarandi grein í Fréttablaðið í dag. Gerið svo vel. 

Hvar sem við lítum er fólk á ferð – í umferð.  Þjóðin ver þar miklum tíma á degi hverjum. Því er  mjög mikilvægt að umferðin sé góð, að okkur líði þar vel. Umferðin er samskipti fólks, mjög náin og skiptir öllu máli að þau séu jákvæð, að við sýnum hvert öðru kurteisi og velvild.

Í umferðinni ættum við að hafa Gullnu regluna að leiðarljósi:  “Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.”

Umferðin krefur okkur þess að við höldum óskertri athygli þegar við erum á ferð. Við megum aldrei líta á umferðina sem tímaþjóf eða afneita því að hún er nauðsynlegur þáttur í lífi okkar, lífi sem viljum eiga sem best.

Umferðin er oft mjög mikil. Við verðum að fara eftir settum lögum og reglum sem gerð eru - okkur til verndar og lífs. Ef við brjótum umferðarreglu þá vanvirðum við okkur sjálf og aðra.

Umferðin á sér nokkra höfuðóvini, þeir eru: Óspennt öryggisbelti, alkóhól og önnur fíkniefni, hraði, farsímar og aðrir þjófar athyglinnar.  Verum ávallt jákvæð og tillitssöm í umferðinni það er gott fyrir samferðafólk okkar og okkur sjálf.

Tvær minningar.  

Já, sá dagur líður varla að þátttaka í umferðinni komi ekki við sögu hjá langflestu fólki. Og við eigum öll minningu af einstökum ferðum úr umferðinni. Mig langar til að nefna hér tvær.

 

Önnur er af því þegar ég og eiginkonan mín vorum á leiðinni heim af fæðingardeildinni frá Reykjavík til Tálknafjarðar. Við tvö, eldri sonur okkar og sá yngri, nokkurra daga gamalt barn okkar - komið út í umferðina. Ég ók eins varlega og ég gat með fjölskylduna mína. Ekkert mátti koma fyrir. Kannski hef ég aldrei verið eins góður ökumaður og einmitt í þessari ferð. Ég var allan tímann að hugsa um það hvað lífið er óendanlega verðmætt og oft á tíðum dásamlegt og hvílík ábyrgð hvíldi á mér sem ökumanni. Já hér var ekið varlega og af árvekni af virðingunni og ástinni við lífið.

 

Önnur minning: Ég er prestur og sit í farþegasæti líkbílsins sem ekur inn Skutulsfjörðinn eftir útförina í kapellunni, sem var í Menntaskólanum á Ísafirði. Ingi kirkjuvörður og -þjónn ekur bifreiðinni, en aftur í hvílir gömul kona í kistu sinni södd lífdaga.  Bifreiðin ekur hægt og líkfylgdin á eftir.  Af hverju var ekið hægt og varlega? Já það var af virðingunni við lífið. 

Þetta eru mér sterkar myndir og skýrar sem vekja okkur vonandi til umhugsunar um það hvað mestu skiptir í umferðaröryggi það er að segja við sjálf sem erum að ferðast og náungar okkar. Við getum spurt okkur sjálf: “Ek ég alltaf af gætni með hugarfari virðingar fyrir öðrum eða gleymi ég því stundum að umferðin krefst fyllstu athygli frá upphafi til enda? Höfum þetta í huga á þessu sumri sem nú er að byrja og eigum góða tíma í umferð sem getur oft á tíðum verið ánægjuleg og góð. 

Karl V. Matthíasson, formaður umferðarráðs.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband