Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Spillingarsetur á Fríkirkjuveg 11

Ein ágætasta nýsköpun sem vð höfum staðið að undanfarin ár er alls konar setur.

Refasetur, hestasetur, selasetur, landnámssetur, vesturfarasetur, ullarsetur o.s.frv.

Þessi setur eru að sjálfsögðu góð bæði fyrir okkur Íslendinga til fróðleiks og ánægju og svo skapa þau líka atvinnu sem tengist ferðamannaiðnaðinum.

Nú er upplagt að stofna spillingarsetur og mætti nota Fríkirkjuveg 11 til þess að hýsa það.

Ísland hefur vakið athygli fyrir spillingu og því væri upplagt að koma upp spillingarsetri þar sem spilling er útskýrð. Mammonsdýrkun, græðig og hroki myndu að sjálfsögðu fá þar góða umfjöllun.

Stöndum saman.

Kalli Matt

 


Verðbætur - spakmæli dagsins.

Eins og seigfljótandi hraun hrannast upp. Svo stíga upp verðbætur úr reiknivélum banka og lífeyrissjóða.

Við getum ekki breytt gosinu en við getum breytt þessu með verðbæturnar.

Heiðarleiki, hugrekki og vilji er allt sem þarf.

Stöndum saman

Kalli Matt


Ertu að hugsa um að hætta að drekka?

Eftir rúma þrjá tíma eða klukkan 20.00 hefst æðruleysismessa í Dómkirkjunni.  Ég hvet alla til að mæta.

Er ekki upplagt að ganga inn í nýja viku með því að þakka fyrir lífið og biðja um leiðsögn fyrir næstu daga?

Þeir sem eru að hugsa um það að segja skilið við Bakkus eru sérstaklega velkomnir, enda gefa þessar messur fólki styrk og kraft til að standast freistingar vímuguðsins grimma sem ber nafnið Bakkus.

Þá er það svo að mörgum líður nú illa vegna þess að einhver í fjölskyldunni datt í það og skandaliseraði, sýndi ofbeldi eða gerði einhvern annan óskunda.  Kvíðinn sem kemur af því er ekki góður og æðruleysismessan hjálpar til að eyða honum.

Allir eru hjartanleg velkomnir.

Stöndum saman.

Kalli Matt

 


Æðruleysismessa annað kvöld í Dómkirkjunni

Það verður æðruleysismessa í Dómkirkjunni annað kvöld kl. 20.00.

Við ættum að fara meira í messur en við höfum gert.

Í æðruleysismessunum er Guði þakkað fyrir lífið og við biðjum hann að leiða okkur áfram á veginum. Þó æðruleysis messurnar séu mikið hugsaðar fyrir óvirka alka og aðstandendur þá höfða þær einnig mjög vil til fjölda annarra.

Annars hver er svo sem ekki aðstandandi. Það eru ekki margar fjölskyldur í landinu sem hafa ekki orðið fyrir barðinu á brennivínu og dópi.

Í þessari messu biðjum við líka um styrk og kraft til þess að geta tekist á við allan þann vanda og erfiðleika sem að okkur steðja. 

Stöndum saman

Kalli Matt


Munum við raunverulega sjá eitthvað nýtt?

Ég hef fylgst með fréttum af skýrslunni í dag. Í rauninni fannst mér einhvern veginn eins og mest af þessu hafi komið fram fyrir utan nokkra brandara. 
Stærstu eigendur bankanna rændu þá - þó svo að það megi ekki segja það berum orðum.  Framkvæmd einkavæðingar láðs og lagar var einkavinavæðing, sem fór fram á ævintýralega spilltan hátt.
Já en nú ætlum  við að breyta öllu til hins betra í stjórnsýslunni og svo framvegis. .... En þegar ég vakna á morgun þá munu Jón Asgeir og LÍÚ segja mér fréttirnar, Óli Óla færa mér varninginn heim Björgólfur Thor selja mér íbúfen, Finnur Ingólfs lesa af rafmagnsmælinum ogskoða gamla Skódann minn, Lýður fá símagjöldin og Pálmi selja mér flugmiða og svo framvegis. Lífeyrissjóðir verða áfram undir valdi þeirra sem  ekkert eiga í þeim og svo auðvitað munu örfáir eiga fiskana í stóra fiskabúrinu umhverfis landið. Því miður. En við verðum að sýna þessu skilning.

Stöndum saman.

Kalli Matt


Ég Á.

Ef ég hef aðgang að fjármagni og kaupi banka. Þá má ég fá það að láni serm aðrir leggja inn í bankann því það fé er eiginlega orðið mín eign.

Ef ég veiddi markríl í fyrra þá á ég alla makríla sem eiga eftir að verða til í  framtíðinni.

Þetta er auðvitað augljóst.  Atvinnulífið verður að standa traustum fótum.

Ef einhver segir eitthvað á móti þessu þá íhuga ég alvarlega að höfða meiðyrðamál.

Stöndum saman.

Kalli Matt


Vængjamessa í Guðríðarkirkju í kvöld kl. 20.00. Misstir þú af messu um páskana?

Vængjamessur eru nýbreytni í Guðríðarkirkju. þær miða að því að styðja og styrkja fólk sem hefur eignast nýtt líf án áfegnis og fíkniefna og einnig miða þær að þvi að vera aðstandendum áfegnis- og fíkniefnaneytenda styrkur.  Þetta eru messur gleði og vonar

Fólk sem hefur lifað í návígi við Bakkus á mikla og erfiða reynslu að baki.

Ein leiðin til þess að losna úr frá kvíðanum og óttanum sem fylgir þessum djöfli er auðvitað leið trúarinnar, lofgjörðarinnar og bænarinnar.

Vængjamessurnar hafa það hlutverk að styrkja fólk í því að komast frá kvíða og ótta.

Í vængjamessunum tjá sig tvær manneskjur sem eru á leiðinni frá bakkusarbölinu. Önnur sem aðstandandi og hin sem alkóhólisti. Svo er auðvitað fallegur sálmasöngur og einsöngur Sylvíu Rúnar, fyrir nú utan góðar og fallegar bænir, uppbyggjandi Guðs orð ásamt, eilítilli hugvekju útfrá því.

Allir eru velkomnir og auðvitað er upplagt fyrir þá sem einhverra hluta vegna komust ekki í messu um páskana að mæta í Guðríðarkirkju kl. 20.00 í kvöld.

Stöndum saman

Kalli Matt


Skírdagur - fótaþvotturinn.

Að skíra þýðir að hreinsa eða þvo.  Jesús þvoði fætur lærisveina sinna á þessum degi. Af því heitir þessi dagur skírdagur. 

Sá sem gengur að borði drottins í einlægni og auðmýkt mun einnig verða hreinn, höfum það líka í huga þegar við veltum því fyrir okkur hvers vegna dagurinn heitir ekki kvöldmáltíðardagurinn.

Hér á eftir er þetta betur út -skýrt með tilvitnun í Jóhanesarguðspjall.

 Með því kennir hann okkur hvernig við eigum að koma fram hvert við annað:

"2Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú. 3Jesús vissi, að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara til Guðs. 4Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. 5Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum, sem hann hafði um sig. 6Hann kemur þá að Símoni Pétri, sem segir við hann: "Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?"

7Jesús svaraði: "Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það."

8Pétur segir við hann: "Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína." Jesús svaraði: "Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér." 9Símon Pétur segir við hann: "Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið."

10Jesús segir við hann: "Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir." 11Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: "Þér eruð ekki allir hreinir."

12Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: "Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður? 13Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég. 14Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. 15Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður. 16Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann. 17Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því. .....""

Fjóla, dóttir mín, fermist í dag, það er svo mikil gleði hjá henni og frænka hennar Elísabet Arna líka, þar er einnig mikil gleði.

Já þessi dagur er fallegur vegna allra ungmennanna sem játa munu trú sína í dag.

Guð blessi framtíð þeirra allra og megi hann einnig styrkja okkur í því að vera þeim góðar fyrirmyndir og styrkur á lífsins vegi.

Stöndum saman

Kalli Matt

 

 

 


Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband