Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Predikun á gamlaárskveldi 2018

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi Amen.

 

„Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.““

 

„Þetta er ónýtt tré höggðu það upp og brenndu það.“

Segir eigandi víngarðsins.

„Bíddu aðeins ég skal hlúa að því og sjáum til hvað verður. Má vera að það taki að dafna og rísi svo upp, verði fallegt og grænt og gefi margar fíkjur í mauk, marmelaði eða annan mat.“ Segir víngarðsmaðurinn.

 

Það geta verið margar ástæður fyrir því að tré skrælni upp, stundum ekki einfaldar. Allra síst þegar allur annar gróður í kring um þetta fíkjutré, runnar, gras, blóm og vínberjatré og aðrar jurtir dafna hið besta.

Til að komast að þessum ástæðum verður að huga að því hvað er í gangi með þetta tré og vita eitthvað um gróður og trjárækt.

Við fyrstu sýn kann okkur að finnast augljóst að gallinn eða veilan séu í trénu sjálfu og gerð þess. Að tréð sé í sjálfu sér vonlaust eða glatað, vanskapað og einhvern veginn vitlaust jafnvel þó það hafi gefið góð fyrirheit um margar, margar fíkjur á fyrstu árum sínum.

En víngarðsmaðurinn er reyndur og hefur greinilega séð að hægt er að ná á ný því besta út úr tré sem jafnvel virðist orðið handónýtt.

Við getum nú spurt á þessu kveldi síðasta dags ársins 2018. Af hverju er þessi dæmisaga Jesú höfð sem guðspjallstexti til útlegginar og sem veganesti inn í nýtt ár 2019.

Við sjáum strax við lestur sögunnar að hún talar bæði um það sem liðið er það sem er og það sem kann að verða.

Við sjáum líka að það fara fram nokkurs konar réttarhöld yfir visnu tré, þar sem útlitið er ekki gott fyrir það, af því að það stóð alls ekki undir þeim væntingum sem vonast var til. Og svo virðist sem trénu hafi hrakað ár frá ári og ekkert eftir nema höggva það svo hægt væri að gróðursetja fyrir nýrri og vænlegri jurt. Eiginlega virðist öxin og eldurinn síðar eina ráðið sem vit var í,

En víngarðmaðurinn var á öðru máli.   Hann sá möguleikann í visnaða fíkjutrénu eða kannske bara von. Það er eins og honum hafi þótt vænt um þetta tré og hann hafi viljað vernda það. Eins og hann væri stóri bróðir þess, stóra systir þess eða jafnvel pabbi þess eða mamma og væntanlega hlaut þetta tré miskunn og möguleika.

„Það býr eitthvað gott í öllum trjám.“ Gæti hann hafa sagt þegar hann tók til við verkið, fór að vökva það bæta jarðveginn og tala fallega við það.

 

Nú skulum við sjá fyrir okkur það fallega gerast, sjá þegar hvert laufblaðið af fætur öðru skýst fram og fíkjurnar koma og svo allt í einu er þetta tré orðið hið fegurst í garðinum af því að það fékk þá næringu og umhirðu sem á vantaði.

 

Hvað er Jesús að kenna okkur með þessari dæmisögu, er hann að kenna okkur garðyrkju eða eitthvað annað eða hvort tveggja?

Jesús er að kenna okkur um okkur sjálf og lífið. Hann bendir okkur á að mennirnir eru tré sem fá ekki lifað án næringar, lofts, vatns og elsku.

 

Þeir sem eru á internetinu og fylgjast með kommentakerfinu við fréttir eða hvers kyns færslur á feisbókinni komast ekki hjá því að sjá að margir eru úrskurðaðir óalandi, óferjandi og nánast réttdræpir.

 

Aðgangsharkan er mikil og ofsinn og enginn grið eru gefin.   Og þegar mönnum verður á, og það stundum hrapalega falla þungir dómar sem öxi á stokk án nokkurrar samúðar eða ígrundunar á því hver raunveruleg orsök mistakanna eða misgjörðanna var.

 

Stundum er sem dómararnir og rétthugsendur allra isma og lína bíði spenntir eftir næstu hneiksluanr ástæðu svo hægt sé að kalla: „Höggvið þetta tré, allt þetta tré er illt og frá því kemur ekkert gott.“

 

Víngarðsmaðurinn er miskunnsamur og hann elskar öll trén í garðinum og leggur allt sitt líf í það að hlúa að þeim hversu illa sem þau eru komin. Það er kærleikur og það er ást.

 

Í þessari stuttu dæmisög sem segir svo mikið er okkur líkt við tré í garði. Við getum alveg hugsað og velt því fyrir okkur á þessum degi hvernig jurt hvert okkar og eitt er og hvort við gætum verið betri hvert við annað hér í heimi sem sárvantar gjafmildi, umhyggju, fyrirgefningu, huggun og ást alveg eins og hið visnaða tré.

Sagan knýr okkur líka til að spyrja okkur sjálf hvernig hvert okkar og eitt hefur varið tíma sínum. Hvernig hef ég komið fram við annað fólk hvernig tala ég um annað fólk. Er ég manneskja sem tekur þátt í því að hlúa að þeim sem fara halloka í lífinu og vil ég gefa þeim tækifæri ef mér er það unnt. Vil ég fyrirgefa og stuðla að því að þau sem hafa brotnað niður vegna mistaka sinna komi sér á rétta braut. Vil ég ganga inn í hið nýja ár með hugarfari víngarðsmannsins, hugarfari kærleika, fyrirgefningar og hlýju eða hugarfari dómhörkunnar og drambsins.

 

Einu sinni bjuggu flestir forfeður okkar og mæður í einhvers konar dölum umluktum fjöllum á allar hliðar, nema eina sem sneri niður eða fram. Þá snerist lífið um að geta framleitt mat sem nægði til að deyja ekki úr skorti. Og á góðum stundum gekk þetta vel en svo komu harðæri og féllu bæði menn og dýr.

En þó þessi lífsbarátta hafi verið hörð þá má segja að lífið hafi ekki verið eins flókið og núna með allar þær upplýsingar og þekkingu sem við búum nú yfir.

Við höfum þekkingu til að sjá að garðurinn sem við höfum verið sett í er að eignast fleiri og fleiri tré sem fara visnandi vegna þess að við sem eigum að vera víngarðsmennirnir hlúum ekki næjanlega vel að öllum garðinum.

 

Virtustu vísindamenn og vísindastofnanir hafa komist að því að mengun sem hefur hlotist af óseðjanleika okkar verður meiri og meiri og við spornum ekki nægjanlega við fótum. Hvað getum vð gert í því?

 

Það skiptir miklu mál hvernig við högum okkur sem einstaklingar en ekki síður sem samfélag manna. Ættum við til dæmis að setja hér reglur um að enginn megi ferðast til útlanda nema einu sinni á ári, að enginn mætti brenna meiru en 250 lítrum af bensíni á ári eða að einginn mætti skjóta upp fleirum en einni rakettu á gamlaárskveldi. Að enginn mætti reykja og svona má lengi telja.

 

Eftir fáeina tíma verður klukkan tólf á miðnætti og nýtt ár gengur í garð. Margt hefur gerst á því ári sem nú er að hverfa í aldanna skaut, sumt gleðilegt og annað sorglegt og allt þar á milli.

Sumir greindust með hættulega sjúkdóma, aðrir fengu bata, ný börn komu í heiminn og önnur féllu frá á misjöfnum aldri. Þessi tímamót vekja mörgum sterkar tilfinningar gleði og sorgar. Guð vill blanda sér inn í allar þessar tilfinningar og aðstæður með því að hlúa að hverjum og einum - sérstaklega þar sem fólk er niðurbrotið og þarfnast hjálpar og aðstoðar. Og þar sem við megum og getum skulum við líka koma að með græðandi hendi.

Við skulum biðja þess að Guð fylgi okkur inn í nýjan tíma lífs okkar og tilvistar inn í nýtt ár þessarar þjóðar sem verður að huga betur að öllum þeim trjám sem tekið hafa að visna.

Og þegar við göngum inn í nýja árið sklulum við vera þakklát fyrir minskunnsemd Guð fyrir allt það sem við höfum fegnið úr hendi hans. Þakklát fyrir það umburðarlyndi og frelsi sem kristin trú boðar og þá fallegu von þessarar trúar okkar sem við eigum um eilífa lífið og frið á jörð. Guð gefi okkur öllum gleðilegt ár.

 

 

 

 

 

 

 

 


Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband