Leita í fréttum mbl.is

Lífróður Samhjálpar - Guðni Páll Viktorsson

Nú er Guðni Pálla að róa síðustu áratökin í róðri sínum kringum Ísland. Þetta er algert afrek, marga daga við erfiðar aðstæður. Það kæmi mér ekki á óvart að innann þriggja daga verði hann koninn til Hornafjarðar en þaðan lagði hann af stað þann 30. apríl s.l. Margir hafa sagt við mig: "Ég ætla að leggja þessu lið" Ég veit að það er einlæg meining, en eins og maðurin...n sagði: "Margt sem við ætlum að gera seinna verður stundum aldrei gert." Því hvet ég alla að kikja núna á möguleika til áheita á lifrodursamhjalpar.com eða aroundiceland2013.com og leggja Samhjálparstarfinu lið og verðlauna Guðna um leið fyrir þann kærleika sem hann sýnir þeim er týnst hafa í válegum jökulsprungum lífsins. Samhjálp bjargar mannslífum allt árið.
Ég vil þakka Morgunblaðinu og mbl fyrir góða og áhugaverða umfjöllun um þetta afrek Guðna Páls.
 
Karl V, Matthíasson

Á kayak kring um Ísland fyrir Samhjálp.

http://www.aroundiceland2013.com/

Þessi hlekkur vísar ykkur inn á síðu kayakróðurs sem róinn er til stuðnings Samhjálpar.

Ég hvet alla til að kíkja á þetta,

Hugsum vel til Guðna Páls og þeir sem fara með bænir eru beðnir um að  biðja fyrir honum og  verkefninu öllu.

Þá hvet ég alla til að taka þátt í áheitum og koma í heimsókn þar sem sérstakar kynningar fara fram á róðrinum og Samhjáp.

Sjón er sögur ríkari fylgjums vel með - því þetta er er afar jákvætt, lifandi og alvöru verkefni sem vekur athygli á mjög góðum málstað.

Stöndum saman

Kalli Matt


Rafmagnsöryggi þjóðarinnar og fleira.

Nú vaknar upp spurningin um rafmagnsöryggi þjóðarinnar. Öryggi fyrir hinn almenna neytanda og einnig lítitl fyrirtæki svo sem þau sem eru í garðyrkju, til að eitthvað sé nefnt.

Með þessu göngum við út á harðan rafmagnsmarkaðinn.

Sá sem selur rafmagn vill auðvitað fá sem allra mest fyrir hvert kílówatt og frekar selur hann þeim sem borgar meira þó  hann búi í London. Munum við geta búið við það?  

Þá vaknar upp spurning um hvort ríkisrekið fyrirtæki  megi taka þátt í samkeppnismarkaði Evróu með rafmagn. Verðum við að selja Landsvirkjun?  Líklegt er að margir vilja eignast orkuver á góðum kjörum eins og sagan kennir okkur.

Já margir vilja örugglega hafa áhrif í þessu máli. Starfshópurinn verður að vera mjög vel vakandi í vinnu sinni. Hann ætti að skila vinnuskýrslu reglulega og skýra frá öllum athugasemdum og ábendingum. Stærsti hagsmunaaðilinn er auðvitað þjóðin sjálf.

"Gáttir allar áðr gangi framm of skoðask skyli, of skyggnask skyli"  Með öðrum orðum: Höfum þetta allt undir ljósinu.

 Kalli Matt


Gott skref hjá Gutta

Það er hræðilegt að sjá hvernig vímuheimurinn alkahól, kannabis og önnur vímuefni herja á þjóðina. Afleiðingarnar eru m.a. þær að margir fara á örorku vegna andlegra meina, sem efnin valda, í fangelsi, ótta við glæpaklíkur, uppgjöf í námi eða atvinnu, slitum á sambúð eða kæru sambandi, flutningi frá fjölskyldu, fjarhagserfiðleikum og svona mætti lengi telja. 

Þeir sem starfa á þeim akri að hjálpa fólki til að rísa upp frá "dauðalífi" fíkniefnaheimsins sjá þetta mæta vel. Og margir hjálpararnir sem hafa  reynt á eigin skinni hversu djöfullegur og illur þessi heimur er gleðjast þegar lagt er lið til stuðnings og heilunar gegn fíkniheiminum. 

Vð skulum berjast gegn þessar mestu vá þjóðarinnar hvar sem við getum. Ég gladdist þegar ég las eftirfarandi orð Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra í gær:

"Atvinnutorg er nýtt úrræði fyrir fólk á aldrinum 16–25 ára og voru fjögur slík opnuð nýlega í Reykjavík, Reykjanesbæ, Hafnarfirði og Kópavogi í samstarfi sveitarfélaganna, velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar. Markmiðið er að veita ungu fólki sem hvorki er á vinnumarkaði né í námi ráðgjöf og stuðning og finna því úrræði við hæfi sem geta falist í starfsþjálfun eða atvinnu, námi eða námstengdum úrræðum, áfengis- eða vímuefnameðferð eða starfsendurhæfingu. Úrræði standa til boða óháð rétti þessara einstaklinga innan atvinnuleysistryggingakerfisins og er það nýmæli."   (Undirritaður skáletraði tilvitnun og sverti þann hluta sem hann vill vekja athygli á.)

Þau sem koma sér frá hinum illa heimi vímunnar, þar sem svartur á leik, vinna stórkostlega sigra, verða sigurvegarar. Lífið verður blessun í stað bölvunar. Og við skulum halda áfram að leggja málefninu lið hvar sem bardaginn fer fram. 

Atvinnutorgið sem ráðherrann segir frá í grein sinn er mikilvægt lóð á vogarskálinu og gleðst ég vegna þess. Í því felst jákvætt viðhorf hans og Vinnumálastofnunar og allra þeirra sem hafa undirbúið þetta framtak. Fyrir það skulum við vera þakklát. 

Og megi þessi dagur verða mörgum sem líður illa  fyrsta skrefið til hins góða lífs.

Stöndum saman.  Kalli Matt


Fæðingardeild íslenzku krónunnar. (Kórónunnar)

Í nótt munu margar krónur fæðast.  Þær munu verða fluttar af fæðingardeild sinni og  lagðar með mikilli umhyggju ofan á þær krónur, sem fæddust nóttina áður, en þær krónur hvíla á enn öðrum, sem fæddust nóttina þar áður.  Þeim fjölgar hratt og örugglega og staðurinn sem þær hvíla svo allar á eru útistandandi lán sem lánastofnanir eiga hjá því fólki, sem veðjaði ekki gegn þessari undraveru sem íslenska krónan er.  Þetta eru verðbóta krónur. Nokkurs konar bætur fyrir þá, sem áttu krónur fyrir,  af því að klósettpappírinn hækkaði, smjörið og bensínið.

Auðvitað verða bankarnir að fá bætur, auðvitað verða sparifjáreigendur að fá bætur, auðvitað verða lífeyrissjóðir að fá bætur það er auk þess svo dýrt að greiða úr þeim.

Og svo kemur að því að þeir sem  fengu þessar krónur lánaðar geta ekki borgað meiri bætur af því að allt hefur hækka svo mikið, nema launin. 

En við verðum að skilja að sigurganga krónufæðingardeildarinnar verður að halda áfarm, án tillits til þess þótt æ fleiri sjái fram á húsnæðismissi eða endalausar greiðslur til bankanna sem verða að greiða fjármagnstekjuskatt af þessum bótum sem þeir fá, af því að allt er að hækka, nema launin. 

Haldið áfarm að borga, borgið, borgið, borgið meir í sjóð. Þetta skulum við syngja öll í einum kór.

Ef þú missir svo íbúðina þína sem þú tókst stórt lán til að eiga fyrir þig og börnin og ert búinn að greiða margar milljónir en sérð lánið hækka,hækka og hækka um jafnmargar milljónir getur þú huggað þig við það að kannski vill bankinn bara leigja þér hana, þegar hann er búinn að taka hana úr höndum þínum af því að þú getur ekki lengur greitt honum bæturnar fyrir hækkunin á klósettpappírnum,  smjörinu og bensíninu.  Lifi fæðingardeild íslensku krónunnar.

Kalli Matt


Hugleiðing á sjómannadag í Seltjarnarneskirkju.

jesus-on-water.jpg

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.

Nú er sjómannadagurinn og þess er nú minnst hér í Seltjarnarneskirkju.

Seltjarnarnesið er umlukið hafinu á alla vegu nema þeim hluta sem snýr að Reykjavík, sem reyndar taldist eitt sinn til Seltjarnarneshrepps.

Mörgum sjómönnum sem búa hér og í nágranna byggðarlögum þykir mjög vænt um Seltjarnarnesið, sem skartar Gróttunni vegna þess að þeir fá hina góður tilfinningu heimkomunnar þegar siglt er inn Faxaflóann og vitinn á Gróttu sendir þeim varnaðarljós sitt og vísar þeim til heima hafnar sinnar.

Og stuttu síðar standa þeir á kajanum og taka utan um börnin sín og maka og allt er eins og það á að vera og oft mikið þakklæti fyrir góðan afla og góða túr hvort sem á fragtskipinu er togaranum, vertíðarbátnum eða trillunni.

Og Seltjarnarnesið sjálft á sína sögu um útræði enda var stutt á miðin hér fyrir framan áður en togaraöldin hófst.

Margir fyrrverandi sjómenn njóta þess líka að koma hingað vestur á Seltjarnanes og horfa út á hafið - hlusta á ölduna syngja ljóð minninga um svo margt er gerðist á hafinu og svo margt annað sem tengist lífinu og baráttu þess, sigrum, ósigrum, gleði og sorgum.

Það má eiginlega segja að brimið eða ölduniðurinn og gjálfur bárunnar sé einn öflugasti listgerningur Guðs er kemur okkur til að íhuga lífið - tilgang þess og upphaf.

En maður verður að gefa sér tíma til að staldra við, hlusta og vera með í þessu hljómfalli.

Sjómannadagurinn er upphaflega minningardagur um íslenska sjómenn og á þessum degi hefur virðing íslensku þjóðarinnar fyrir sjómönnum sínum jafnan komið vel í ljós.

Í þeirri mynd sem sjómannadagurinn er nú var hann fyrst haldinn hátíðlegur í Reykjavík þann 6. júní árið 1938 bæði á Ísafirði og í Reykjavík þar sem 10.000 manns tóku þátt í hátíðarhöldunum við Leifsstyttuna á Skólavörðuholti í Reykjavík.

Sjómenn hafa verið heiðraðir á þessum degi og augu manna hafa beinst að hinum miklu hættum, sem sjómenn hafa oft á tíðum mátt glíma við í gegnum aldirnar.

Öryggismál sjómanna hafa einnig borið mikið á góma í þessum degi, en síðast en ekki síst er þessi dagur minningardagur um þá sjómenn hafa farist á hafi úti eða við strendur landsin í glímunni við hafið.

Og fyrrum voru allar kirkjur landsins þéttsetnar á þessum degi þar sem Guði voru falin líf þeirra sem létust og framtíð hinna er eftir lifðu.

Sem betur fer hefur það verið svo að manntjón hefur minnkað stórlega hin síðari ár og skipsköðum einnig fækkað.

Er hér einkum fyrir að þakka aukinni öryggisgæslu og tilkomu betri öryggistækja allt frá flotbúningi til björgunarþyrlu og auðvitað öruggari skipa. En þó svo sé er alltaf full ástæða til að betrumbæta öryggisþættina og læra af reynslunni og af þeim mistökum, sem átt hafa sér stað. Hvað má betur fara og hvernig er best staðið að því að laga það?

Útgerðarmenn hafa líka sýnt þessum málum mikinn áhuga hina síðari ár.

Við getum í huga okkar hugsað til allra þeirra sem hafa farist á hafi úti og við sjómennsku sína. Við vitum að það er ógrynni manna já fjöldinn allur af fólki.

Og þegar við lesum sögubækur um sjómenn og sjómennsku hér á landi kemur fljótt í ljós að við höfum séð á bak hundruðum sjómanna, sem hafa skilið eftir sig ófyllt skörð, manna sem hafa fallið nánast bótalaust frá barnmörgum fjölskyldum sínum.

Og í beinu framhaldi af þessu verður okkur hugsað til eiginkvennanna þeirra hvernig þær máttu svo berjast fyrir afkomu sinni og barnanna eða lifa við að börnin voru tekin af þeim.

Íslenskir sjómenn síðustu aldar eru sú stétt sem hvað stærstan þátt áttu í að leggja grunnin að því velferðarkerfi sem við búum nú við og fórn þeirra var líka mikil, fórn sem við munum seint fá fullþakkað og skilið.

Já starf sjómannsins er mikið áhættustarf það kennir sagan okkur og þeir sem eiga maka úti á sjó son eða dóttur, bróður eða systur hugsa til þeirra með bæn í hjarta á hverjum degi.

Saga sjómennskunnar er samofin trúarsögu okkar og kemur okkur til að hugsa og minnast þess að þegar sjómenn höfðu komið báti sínum á flot hér áður fyrr tóku þeir inn árar til að fara með sameiginlega sjóferðarbæn þar sem þeir báðu Guð að vera með þeim þessa sjóferð.

Og þó við vitum að togararnir stoppa ekki eða bátarnir þegar þeir eru nýlagðir úr höfn til þess að áhöfnin fari í sameiningu með sjóferðarbænina Þá vitum við að margir sjómenn spenna greipar í kojunni sinni og biðja Guð að blessa skip og áhöfn og fjölskylduna sína sem í landi er.

Það á nefnilega ennþá fullkomlega við að Jesús Kristur er í hverju skipi hins íslenska skipaflota, já þrátt fyrri alla tæknina og öryggið þá er svo sannarlega full ástæða til að láta þá vitneskju móta sjóferðina að Jesús Kristur er um borð í íslenskum skipum og bátum. Það vill kirkjan segja á þessum hátíðardegi enda er guðspjall þessa dags einmitt um það þegar Jesús er um borð í bátnum með lærisveinum sínum.

Já kirkja tengist einnig sögu sjómennskunnar að öðru leyti. Því hún átti útræði víða um land. Það voru mikil hlunnindi því þeir sem áttu útræðin fengu hluta af afla og réðu því hverjir máttu róa og hverjir ekki úr víkum og vörum.

Sjálfir biskupsstólarnir koma hér einnig við sögu sem og stórbændur.

Þetta breyttist smám saman sem betur fer með tilkomu stærri hafna og svo varð að allir íslendingar voru taldir eiga sama réttinn til sköpunarverksins og að allir þeir sem vildu og gátu máttu róa og sækja sér björg í bú rétt eins átti við um vitavörðin í Gróttu um miðja síðustu öld.

Nú er þetta breytt á ný. Við höfum siglt inn í það ástand að ef einhverjum ungum manni dettur í hug að verða sér úti um bátshorn og fara að veiða með önglum sér til framfærslu þá verður hann að greiða svokölluðum handhöfum auðlindarinnar á fjórða hundrað krónur fyrir hvert kíló sem hann veiðir af þorski.

Sjálfur minnist ég þess að hafa keypt svokallaðan Færeying fyrir svo sem 25 árum ásamt frænda mínum og við rérum og veiddum á skaki undir Jökli án þess að einhverjir óviðkomandi menn fengju fyrir það stóran hluta aflans í leigu.

Vonandi verða þær breytingar sem líta nú dagsins ljós til þess að ungir menn fái atvinnu við fiskveiðar sem gefur þeim og fjölskyldunni gott viðurværi.

Íslensk útgerð hefur líka breyst mjög mikið aflaheimildir hafa verið fluttar í þúsundum tonna vís frá einum stað til annars án þess að fólkið sem bjó þar hafi nokkuð um það að segja.

Sá sjómaður sem byggir sér ból vegna útgerðar á einum stað getur vænst þess að hlutabréfin í útgerðinni sem hann starfar við hafi verið seld og þar með bátnum lagt í skyni hagræðingar og hann atvinnulaus og plássið að stórum hluta um leið.

Við spyrjum að því þessa dagana hver eigi fiskinn í sjónum alveg eins og sumt fólk í öðrum löndum spyr að því hver eigi auðlindir landsins sem það fæddist í.

Hver á gullnámurnar í Úrgvæ, koparinn í Chile og olíuna í Nígeríu eða Líbíu? Og hvernig verður auðlindinni réttlátlega skipt milli þegnanna svo öll börnin þar njóti arðsins. Svo öll börnin læri þar að lesa og komist til læknis þegar þau verða veik og gamla fólkið góðan aðbúnað á síðustu árum ævi sinnar.

Þetta eru allt trúarlegar, heimspekilegar og siðferðilegar spurningar en meðan ísköld hagfræðin ein ræður ríkjum fáum við aldrei gott siðferðilegt svar.

Og þetta hið sama á við um hina íslensku auðlind. Hver á hana?

Það er eins gott og ekki að ástæðulausu að rík krafa er um að festa í grunnlög landsins, stjórnarskrána að fiskimiðin og aðrar auðlindir landsins skuli vera óskoruð eign þjóðarinnar.

Hver á fiskinn í sjónum? Er það ekki sá sem skapaði hann er það ekki sjálfur Guð?

Mennirnir hafa komið og farið en sköpunarverkið, fjöllin landið og hafið og það sem í því býr er á sínum stað. Þess vegna eigum við að ganga í hógværð og kærleika um veröldina sem Guð lætur brauðfæða okkur. Því við erum ráðsmenn Guðs og við verðum spurð að því um síðir hvernig stóðum við okkur í því hlutverki.

Ráðsmaður Guðs á jörðinni lítur til allrar meðbræðra sinna og systra. Hann spyr Guð um það, hvað best sé gert til að sem allra flestir geti lifað við góðan kost.

Hann segir ekki: „Ég er bestur þess vegna á ég að fá sem mest.“

Nei hinn réttláti ráðsmaður staldrar við og leyfir rödd Guðs að tala inn í hjarta sitt. Sá ráðsmaður leyfir Guði að stýra lífi sínu og starfi. Sá ráðsmaður þarf ekkert annað en þá vitneskju að Guð verndar hann og leiðir alla ævidagana.

Þegar við lítum yfir svið heimsins þá sjáum við að margir þjást og líða vegna deilna og baráttu um alls kyns auðæfi og auðlindir.

Í öllum þessum deilum er greinilegt að menn spyrja ekki: “Hvernig vill Guð hafa þetta og hvers krefur Kristur okkur í þessum aðstæðum?”

Hvers krefur hann okkur og hvað vill hann segja við okkur núna? Hvert er réttlæti hans og sannleikur í sambandi við íslenskan sjávarútveg og auðlindastefnu? Við hvers hlið stendur hann?

Hvernig fáum við svörin við þessu öllu saman? Svörin koma ekki sem skyndileg rödd í hávaða og látum kauphallanna nei þau koma úr djúpi hjartna okkar þegar við höfum leyft honum að skapa það hreint og gefið okkur nýjan og stöðugan anda.

Þegar við höfum meðtekið réttlæti hans, þegar við höfum numið staðar og kallað á hann í ölduróti lífsins og beðið hann að bjarga okkur frá voninni um hámarksgróða og hagnað án tillits til fólks og byggða. J

á, á þessum sjómanndegi skulum við vita að Kristur stendur við hlið okkar og vill fá að leiða okkur í gegnum lífsins ólgu sjóa svo að við náum þeirri höfn sem mikilvægast er að náum um síðir - höfn réttlætis, sannleika og kærleika.

Við skulum biðja hann að vera með okkur í lífsfleyi okkar alla daga, allar stundir og móta huga okkar, hjarta og sál.

Í Jesú nafni - Amen.


Þjóðaratkvæðagreiðsla um kvótann.

Ríkisstjórnarflokkarnir voru kosnir út á mikil loforð um róttækar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þjóðin styður Jóhönnu í þessu máli.
En samt eru áhrif LÍÚ hópsins svo mikil, að hann getur lamað allt atvinnulíf þjóðarinnar eins og nú er að koma fram. Ekki er hægt að bæta kjör fátæks fóks sem vinnur við fiskverkun, á kössum stórmarkaða eða hreinsar til á sjúkrahúsum eða í hótelherbergjum af því að LÍÚ er í fýlu. Fiskurinn er olía Íslands og gull. Ég tel rétt að við höfum þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið.

Stöndum saman.

Kalli Matt


Verðkrónan nýja.

Upp er komin hugmynd - að gefa krónunni okkar nýtt nafn látum hana heita verðkrónu.  

Við megum ekki sleppa henni því þá þarf að auka agann í hagstjórninni og hagfræðingarnir þurfa að taka sig á. (Það myndi ekki nægja þeim að skipta um nafn).

Hin verðtryggða króna er órjúfanlegur múr, sá sem er svo vitlaus að taka verðryggt lán sleppur ekki úr gildrunni.

Maturinn hækkar, olían hækkar, klósettpappírinn hækkar, fötin hækka og þar af leiðandi hækkar lánið sem vitleysingurinn tók.

Íslenska krónan er rándýr, sem étur heimilin þessa dagana hvert af öðru og þeir sem eru í skilanefndum heimilanna fá lægri og lægri laun. 

Nei, sleppum ekki krónunni höfum sjáfstýringuna á þó við munum ekki hvert við ætluðum að stefna þegar gamla góða  krónan var tekin upp.

Stöndum saman.

Kalli Matt


Af hverju snerta jólin svona marga? - Gleðileg jól.

Ég fór í barnafataverslun í gær með eiginkonu minni. Þar voru margir og gaman var að sjá hvað fólkið vandaði sig í vali sínu.

Það var vegna þess að þau voru að kaupa jólagjafir á litlu börnin sín eða barnabörnin sín eða einhver önnur börn sem þeim þykir svo vænt um.

Öll vildum við kaupa góða og fallega flík á börnin.

Barnið sem við vorum að velja fötin á er óendanlega fallegt og algerlega háð kærleika umhverfis síns. það kallar á kærleikann, sem það sjálft ómælt sendir frá sér og sjálfkrafa vex ástin til barnsins. 

Þessi ást til barnanna og viðleitini okkar til að þeim líði vel og eigi góðan grunn til að standa á lífinu er þeim óendanlega mikilvæg.

Hlýjan sem fötin veita barninu er lífsnauðsynleg en hin andlega hlýja er ekki síður nauðsynleg og uppsprettu þeirrar andlegu hlýju getum við sótt í boðskpa jólanna, þ.e. í jólaguðspjallið sem talar til okkar í dag.

Boðskapur jólanna snertir okkur vegna þess að hann er fagnaðarboðskapur um nýjan og betri heim fagnaðarboðskapur um að hvert okkar og eitt er óendanlega mikils virði í augum Guðs og í þeim anda eigum við að koma fram hvert við annað og í þeim anda ættum við að lífa. 

Fyrst Guð elskar þig, elska ég þig líka.

Gleðileg jól kæru vinir nær og fjær.

Karl V. Matthíasson, prestur .

 


1. des fullveldisdagur þjóðar - fullveldi hvers og eins - kvöldmessa.

Mikið er nú talað um stjálfstæði þjóða, fullveldi þeirra, grunnlög og svo framvegis.

Það er lítið varið í þjóð sem er fullvalda ef fólkið sem hún er mynduð af er ekki fullvalda eða frjálst í sínu eigin lífi.

Eitt það verst sem hendir manninn er að missa stjórn á lífi sínu.  Áfengi og önnur eiturlyf valda slíku oft og mörg eru þau sem hafa glatað miklu vegna fíknarinnar. Það er sorglegt.

Hitt er hins vegar gleðilegt að mjög margir komast út úr því víti sem áfengissýkin veldur. Til þess að svo geti orðið verður  andleg vakning að koma til. Margir leita sér styrks í trúnni sem hjálpar fólki til að sjá lífið upp á nýtt og hjálpa því til að komast á góðan veg.  Að stunda kirkjuna sína getur verið liður í þessu.

þess vegna býður kirkjan upp á æðruleysismessur og vængjamessur sem eru systur.

Það verður vængjamessa í Guðríðarkirkju í kvöld kl. 20.00.  Sylvía Rún Guðnýjardóttir syngur og Ástvaldur Traustason annast undirleik.  Tveir munu deila með okkur reynslu sinni og sr. Sigríður Guðmars og undirritaður leiða messuna.

Á eftir er boðið upp á súkkulaði, kaffi og gott meðlæti að hætti Lovísu kirkjuvarðar.

Allir eru hjartanlega velkomnir í þessa messu sem einkennist af gleði og von.

Stöndum saman

Kalli Matt


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband