Leita í fréttum mbl.is

Róðurinn - Smásaga

Róðurinn. 

Alla ævi sína hefur hann átt heima þar og margt hefur borðið við í þessu plássi sem hafði lifibrauð sitt af því að veiða fisk og vinna og selja svo til útlanda.

Að kaupa sér í soðið þekktist ekki það var auðvitað svo sjálfsagt að allar fjölskyldurnar fengju hrogn og lifur, ýsu, steinbít, kola eða jafnvel lúðu í matinn án þess að vigtað væri eða talið á einhvern hátt.   

Nú er öldin önnur. Ljósvélar bátanna eru þagnaðar, bátarnir farnir, brenndir í áramótabrennum og ungu strákarnir og stelpurnar sjá ekki framtíð sína þar lengur, þau eru farin eða eru á leiðinni í burt.

Og allt landsbyggðarfólkið sem  hefur safnast saman á Holtum og Hólum fyrir ofan gömlu Reykjavík, setur sig í skuldir fyrir milljónir til að geta búið í nýbyggðum húsunum, stórverktaka og einkavæddra banka.

Þó ekki alveg allir, einn og einn eru eftir, sem geta ekki skorði á þennan þráð, eða ósýnilega naflastreng sem liggur frá móður jörð og djúpi sjávar inni í hjarta þess sem fór ekki suður. 

Og þar sem hann stendur í flæðarmálinu og heyrir gjálfur öldunnar skora á sig að koma og róa nú til fiskjar á þessum eina báti sem óbrenndur er við bryggjuna Bryggjuna sem eitt sinn var heimkynni óendanlegrar ástar og framtíðarvona . Já hann heyrir gjálfur öldunnar hvísla þessum seiðandi ögrunar- og ástarorðum: "Komdu, komdu það er ekki allt búið komdu."

 

Um hann fer straumur. Hann fer heim,  niður í kjallara fer í lopapeysuna, síðu nærbuxurnar, stígvélin og stefnir niður í bát. Nú skal róið. Hnum er andskotans sama þó verðbréfamiðlarinn sé sagður eiga allan fiskinn í Heimafirði. Já honum er andskotans sama um allt, nema það að mega lifa hér áfram og sjá líf sitt dafna í blessun og friði eins var.

  Og vélin fór í gang. Listerinn klikkaði ekki og á miðin var stutt. Þetta var dásamlegt. Múkkinn var kominn að sníkja lifur. Hann söng. Hann söng:  “Sjá dagar koma ár og aldir líða.”  Hann söng svo hátt að klettarnir fyrir ofan Hrafnseyri heyrðu sönginn og frelsis álfarnir, dvergarnir og tröllin vöknuðu og hrópuðu og kölluðu sína á milli: “Bárunum tókst að vekja hann Jón, Hann er farinn út á sjó að veiða fisk.”  Og Jón hann veiddi fisk og fór í land. Hann var orðinn maður á ný og hann fór meira að segja með fiskinn heim og flatti alveg eins og Pétur gerið forðum. Nú var allt eins og það átti að vera framtíðin komin á ný.  

En viti menn, þegar hann var að klára að fletja síðasta fiskinn kemur þá ekki lögreglan, fiskistofa, fulltrúar ráðneytis og fjárfesta á staðinn og taka Jón fastan og honum er haldið þangað til þyrlan kemur. Læknirinn ætlar að gefa honum sprautu en Jón streitist á móti og fellur á eyrað. Hann er settur upp í þyrluna og farið með hann. Jón rankar við sér í sjúkrastofunni allt er hvítt í kringum hann. Nú heyrir hann suð. Það er eyrunum og hann hugsar: “Þetta er niður brimsins sem ég heyrði þegar ég var barn,”

Stöndum saman.

Kalli Matt 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Já Kalli. Stórveldismenn Íslands hafa beitt alþýðu manna ótrúlegum blekkingum árum saman. Sjávarbyggðum Íslands hefur verið fórnað á altari auðhyggjunnar með ofsafenginni græðgi fárra spiltra einstaklinga.

Það er vandséð hvaða stjórnmálamenn hvar í flokki sem þeir standa láti ljúga sig áfram til fylgilags við kvótakerfið. Kotkarlar og þrælar sægreifana munu brjóta af sér hlekkina og rísa upp allir sem einn á móti þeiri skefjalausu kúgun sem þeir hafa þurft að þola árum saman.

Einar Benediktsson skáldjöfur Íslands orti kvæðið Íslandsljóð fyrir rúmum eitthundrað árum og var tilefnið ærið á þeim tíma. Íslandsljóð á fullt erindi til þjóðarinnar í dag.

Níels A. Ársælsson., 19.1.2008 kl. 13:16

2 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Þú fólk með eymd í arf !
Snautt og þyrst við gnóttir lífsins linda,
litla þjóð, sem geldur stórra synda,
reistu í verki
viljans merki,-
vilji er allt, sem þarf.
Trúðu á sjálfs þíns hönd, en undur eigi.
Upp með plóginn. Hér er þúfa í vegi.
Bókadraumum,
böguglaumnum
breyt í vöku og starf.

Þú sonur kappakyns !
Lít ei svo við með löngun yfir sæinn,
lút ei svo við gamla, fallna bæinn,
byggðu nýjan,
bjartan, hlýjan,
brjóttu tóftir hins.
Líttu út og lát þér segjast, góður,
líttu út, en gleym ei vorri móður.
Níð ei landið,
brjót ei bandið,
boðorð hjarta þíns.

Níels A. Ársælsson., 19.1.2008 kl. 13:16

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Falleg saga og sönn um öll efni. Óréttlæti hennar hefur verið varið með ómerkilegum orðhengilshætti  um hagræðinguna svonefnda sem þó aldrei hefur verið reiknuð nema frá einu sjónarhorni.

Nú reynir á hvort þú hefur þá skoðun sem þú hefur bundið í fallegan texta en engu skilar nema klökkva í sálina.- nema: Nema það komi í ljós að Samfylkingin sé þegar á reynir stjórnmálaafl sem treystir sér til að vera málsvari mannlífsins þegar til kastanna kemur.

Ég er ekki bjartsýnn miðað við orð forystunnar.

Árni Gunnarsson, 19.1.2008 kl. 13:21

4 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Sammála Árna þetta er falleg saga. Kalli ég er ekki alveg viss um að þú gerir þér alveg grein fyrir þeirri óánægju og reiði sem fólk er að burðast með í vörubílaförmum í hjarta sínu. Það er lag Kalli að taka á þessu núna, tækifæri sem við megum ekki láta frá okkur. Þú hefur ótrúlega mikinn stuðning fólks í landinu ef þú þorir að taka slaginn. Ég skora á þig Kalli, farðu eftir hjartanu og fylgdu eftir þessari færslu þinni, þú stendur ekki einn í þeim slag.

Hallgrímur Guðmundsson, 19.1.2008 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband