Leita í fréttum mbl.is

Litla Hraun - barnaheimili?

Er Litla Hraun að verða barnaheimili? Þannig var ég spurður eftir umfjöllunina á dómi yfir 15 ára dreng um daginn.  

Eitt af því sem ég er afar ánægður með í stjórnarsáttmálanum er eftirfarandi: 

"Nauðsynlegt er að bregðast hart við aukinni vímuefnavá með öflugri fræðslu og forvörnum, stuðningi við fjölskyldur í vanda, fjölbreyttum meðferðarúrræðum og hertri löggæslu. Ríkisstjórnin leggur sérstaklega áherslu á að meðferðarúrræði séu nægjanleg fyrir þá sem ánetjast vímuefnum og tryggt sé að þjónusta á þessu sviði sé samþætt og markviss og gagnist öllum hópum sem á þurfa að halda. Fylgja þarf eftir áætlunum um uppbyggingu fangelsa."

Í gegnum tíðina hafa margir stjórnarsáttmálar verið undirritaðir en mér er til efs að orðið fangelsi hafi  komið þar fyrir fyrr en nú.

Bjarni heitinn Benediktsson hafði áform um að bæta stórlega fangelsismálin okkar en honum entist ekki aldur til þess - því miður. Ég tel að nú sé lag og trúi að ríkisstjórnin hyggi á góð áform í þeim sama anda sem Bjarni lagði upp með á sínum tíma.

Þegar við lesum fréttir síðustu daga af slysum, óhöppum og ölvunar- og vímuefnaakstri og svo auðvitað af þeim fangelsisdómum sem upp eru kveðnir yfir ungum karmönnum alveg niður í 15 ára aldur, þá hljótum við að spyrja okkur: Hvað er til ráða? Hvað getum við gert? Getum við staðið okkur betur í þvi að hrífa fólk úr alkahól- og vímuefnaheiminum? Og getum við staðið okkur betur í því koma í veg fyrir að svona margir baldnir strákar lendi beint í bjórnum, brennivíninu og dópinu þegar þeir eru jafnvel í grunnskóla?

Getum við tekið betur á málum, áður en þessir ungu menn eru dæmir til margra mánaða og jafnvel nokkurra ára fangelsisvistar? Mitt svar er já. Við eigum að grípa mun fyrr inn í málin. Og þeir aðilar sem fara með þessi mál í stjórnkerfinu verða að tala saman í mun ríkari mæli. Því þessi mál eru ekki einkamál "fjölfróðra eða alvitra sérfræðinga" hér og hvar í kerfinu sem jafnvel verja löngum tíma í að "halda sínu".

Hér skarast fræðslumál, barnaverdarmál, forvarnarmál, meðferðarmál, dómsmál, heilbrigðismál, fangelsis mál og svo síðast en ekki síst fjölskyldumál. Við vitum öll að mikil þjáning og jafnvel lömun á sér stað í fjölskyldum þar sem  "aðeins" einn verður gripinn æði drykkju- eða fíkniefnasýkinnar.  

Í samþykkt landsfundar Samfylkingarinnar í maí síðastliðnum komu fram eftirfarandi áherslur:

 

1.    FORVARNIR: Setja í námskrá grunnskóla og framhaldsskóla skyldunám í skaðsemi áfengis og fíkniefna. Áfengis- og vímuefnaráðgjafar verði ráðnir að hverjum skóla til forvarna. Skýr og einföld fræðsla um staðreyndir án prédikunar. Einungis þannig næst til allra barna og unglinga. Samstarf við hin ýmsu félagasamtök og stofnanir svo sem barnaverndarstofu, foreldrafélög, leik-grunn- og framhaldsskóla, lögreglu, fangelsismálastofnun, félagsþjónustu, félagsmiðstöðvar, svæðisskrifstofu fatlaðra, heimahjúkrun svo að einhver dæmi séu nefnd.
2.    RÁÐGJÖF, fræðslu um einkenni og neyðarhjálp verði komið á fyrir aðstandendur þegar grunsemdir vakna um neyslu. Áhersla á að vara við þögn. Upplýsa alla, skólayfirvöld, vini og vandamenn. Hugsanlegt samstarf við heilsugæslu og eða þjónustumiðstöðvar á hverjum stað.
3.    FYLGJA EFTIR LÖGUM sem banna börnum og unglingum að neyta áfengis og fíkiefna. Hafa samband við foreldra þegar slík tilvik koma upp. Taka einnig á sífelldum brotum á banni við áfengisauglýsingum – skýrari löggjöf sem síður er hægt að brjóta. Óviðunandi að hafa löggjöf sem ekki er virt.
4.    INNGRIP strax og vitað er um ólöglega fíkniefnaneyslu. Skoða hvernig aðrar þjóðir hafa nýtt sér heimildir um þvingaða meðferð og hver árangur af slíkum aðgerðum hefur verið. Inngrip er nauðsynlegt og ítrekuð neysla unglinga kallar á ábyrgar aðgerðir.
5.    AÐSTOÐ EFTIR MEÐFERÐ til að komast aftur til eðlilegs lífs.
6.    LÖGGÆSLA til að finna fíkniefnasala og auka eftirlit með smygli á öllum sviðum. Það ætti að vera hægt að finna dópsala í smábæjum þegar unglingar geta fundið þá með einu símtali.
7.    DÓMSMÁL Hætta að dæma helsjúka fíkla í almenn fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu og skyld brot og skilgreina hana sem heilbrigðisvandamál. Byggja upp meðferðarstofnanir fyrir neyslutengd afbrot. Þyngja enn refsingar fyrir þá sem selja og fjármagna eiturlyf – en eru ekki háðir þeim sjálfir. Það eru hinir raunverulegu glæpamenn. Löggjöf til að skylda fíkla til langtímameðferðar. Um 70% þeirra sem dvelja í fangelsum landsins eru í fíkniefnaneyslu eða tengdir henni. Með því að hætta að setja fíkla í fangelsi, en vista þá þess í stað á þar til gerðu lokuðu meðferðaheimili þar sem unnið er af fagmennsku, losnar mikið pláss í fangelsum landsins.  Peninga sem þar sparast er hægt að nota til að fjármagna meðferðarstofnanir

Úr þessum punktum má nýta margt en aðalatriðið er að við leggjumst nú á eitt til þess að við séum ekki að vinna í mörgum hornum í þessum mikilvægu málum. Grundvallaratriðið er að við höfum heildarsýn aukið samstarf og síðast en ekki síst einaraða stefnu, sem við erum sammála um. Já, hér getum við betur gert það veit ríkisstjórnin þess vegna er hún með sérstakan kafla um þessi mál í sáttmála sínum. Ég vænti mikils af því og mun líka gera mitt til að halda þessu á lofti sem alþingismaður sitjandi í allsherjarnefnd.

Stöndum saman

Kalli Matt

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Búin að lesa þetta upphátt fyrir Þór og Heiðu og Þór hrópaði á eftir"Kalli Matt" "Kalli Matt" "Kalli Matt"

Edda Agnarsdóttir, 15.7.2007 kl. 20:34

2 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Það er ljóst að þór er snillingur.

Kalli Matt

Karl V. Matthíasson, 15.7.2007 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband