Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Smjörklípan og kötturinn.

Jóhanna Sigurðardóttir koma víða við í ræðu sinna á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar.

En mest virðist hafa verið einblínt á ummæli hennar um fáeina ríkisstjórnarþingmenn Vg.

Ekkert óeðlilegt við það að menn hafi tekið eftir þessum ummælum, þetta ver svoltið fyndið. En nú hefur verið gert úr þessu kattarfár mikiið. 

Fjölmiðlar gerðu þessum mikil skil og sumir mjög mikil höfðu viðtöl og svo framvegis. Vg sjálf fórr ekki á taugum  út af málinu  þó það hafi verið blásið út.

Þessi mikla umræða um köttinn minnir auðvitað á smjörklípu aðferðina. Þú setur smá smjörklípu á kött og þá tekur hann til við að sleikja hana og á meðan beinist athygli hans ekki að bráðinni, sem við viljum vernda.

Nota sumir þessi ummæli sem smjörklípu til að beina athyglinni frá öðru sem boðað eða sagt var í ræðunni?

Ég hvet alla til að lesa ræðuna og skoða hvaða boðskap foreætisráðherra þjóðarinnar hafði að segja um atvinnumál, sjávarútvegsmál, fangelsismál o. m.fl.

Stöndum saman.

Kalli Mattt


Útvarpspredikun á pálmasunnudegi.

Hér á eftir kemur útvarpspredikun mín sem flutt var í útvarpinu s.l. pálmasunnudag. Fyrst kemur guðspjallið sem lagt var út af. Njótið heil.

Guðspjall: 
Jóh 12.1-16

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi, Amen.

Líf og ást, tryggð, þjónusta, þakklæti, auðmýkt, gjafir,  Ilmur, dásamlega góð lykt, heilbrigður maður sem risinn er upp frá veikindum sínum og dauða, fórnfýsi, takmarkalaus elska, undrun,  aðdáun, sigurgleði, fögnuður, væntingar og viska.

Öfund, hatur, reiði, gremja, svik, þjófnaður, launráð, myrkur og dauði.

Öllu þessum mætum við í textum guðspjalls Pálmsunnudagsins, sem að þessu sinni er tekið úr Jóhannesar. 

Þegar við íhugum atburði pálmasunnudagsins sjáum við yfirleitt fyrir okkur innreiðina í Jerúsalem þar sem Jesús Kristur kemur á asnanum inn um borgarhliðið og allir fagna og leggja klæði sín á veginn og  pálmagreinar sem sigurtákn eru. 

Upp í hugann kemur falleg ljósgeisla mynd eða sunnudagaskólamynd af Jesú á asnanum og  öllu fólkinu í kring um hann.

En nú má segja að guðspjalli þessa dags fylgi nokkur formáli, sem segir frá dvöl hans í vinahúsi og atburðum sem áttu sér stað í kvöldverðarboðinu þar. Þegar við lítum gestalista þessa boðs sjáum við að Jesús er þar auðvitað, lærisveinarnir líka en enginn þeirra sérstaklega nefndur nema Júdas Ískaríot.

Gestgjafarnir eru systurnar Marta og María og bróðir þeirra Lasarus, sem Jesús kallaði frá dauðanum til lífsins. 

Já, þarna eru þau þessi hópur í kyrrð kveldsins og friði og allur blær frásögunnar ber vott um einfaldleika, mikla elsku, hreinleika systranna og tengingu við lífið sjálft en hér hvílir þó skuggi yfir, sem kemur fram í orðum Jesú er hann segir fyrir um dauða sinn.  Orð sem komu til vegna ásakana Júdasar Ískaríots um bruðl og jafnvel skeytingarleysi.  

Yfir öllu þessu hvílir svo hið dimma ský grimmdar, einþykkni og valdagræðgi prestanna sem vilja Jesú dauðan og Lasarus líka til ómerkja kraftaverkið er Jesús reisti hann upp frá dauðum. 

Jesús er nú kominn að Jerúsalem, borg hinna grimmu valdsmanna en fólkið fagnar og vonar á hann, hleypur á móti honum eins og það búist við því að asninn sé gullasni en það er ekki svo. Því fyrsta verk Jesú var svo að fara inn í musterið og ryðja þar um koll borðum víxlaranna og síðan að predika með miklum áminningum og ádeilum inn í samtíma sinn. 

Og af hverju er verið að segja frá þessu núna svona löngu, löngu síðar á allt öðrum tíma og allt öðrum stað á hnettinum og það jafnvel í útvarpið.

Reyndar er sjálf frásagan svo mögnuð að hún ein og sér kemur okkur til að pæla í mörgu um mannlegt eðli og eigindir, svo sem góðmennsku, illgirni og margt fleira.  En það er þó ekki ástæðan heldur er hún sú að þessi: Jesús er Kristur. Sá er gekk veg sinn allan til písla og dauða á krossi en jafnframt til upprisunnar til þess að koma því til skila að Guð vill við okkur tala. Benda okkur elsku sína, eilífa lífið og gefa okkur reglu um það hvernig líf og starf Jesú Krists á að vera okkur öllum fyrirmynd í lífi hvers okkar og eins. Það er ástæðan 

Á þeim tíma sem við nú lifum er okkur hollt að íhuga vel hvers við væntum og hvað það skal vera sem á að móta líf okkar. Hvaða boðskapur á að vera okkur leiðarljós inn í myrkur samfélags sem hrundi eins og borð víxlaranna í musterinu forðum.

Hvernig ætlum við að ganga fram á veginn sem einstaklingar og sem þjóð.  Hver er sú viska sem við ætlum að fara eftir á komandi mánuðum og árum hvaða orð á að verða grunnur hinnar ný byggingar sem hýsa skal samfélag okkar? 

Í Guðspjallinu getum við valið á milli tveggja lausna.  Önnur vísar til græðgi svika og lýðskrums, en hin vísar til auðmýktar, þolinmæði og fórnfýsi. 

Margir hrópa nú: "Mín leið er best allt annað er vitleysa og svik" og enn aðrir kalla: "Hér er ég með lausnina minn asni er gullasni."

En ef við setjumst niður og gefum okkur tóm til íhuga í heiðarleika og kristilegum anda spurningar eins og þessar.  Hvað er best fyrir fjölskyldu mína og framtíð?  Hvað er best fyrir heildina? Hvað er best fyrir þjóð mína?  Þá koma upp svör sem fela í sér erfiðleika og glímu en jafnframt felast í þeim frelsun frá vandanum að lokum því að þessi svör koma úr sjóðum andlegra gæða og hirslum kærleikans.

Það er nauðsynlegt að gagnrýna og benda á það sem betur má fara en þegar slíkt er gert verðum við að vera heiðaleg og sanngjörn meðvituð um það að gagnrýnin eigi að verða til uppbyggingar og blessunar en ekki til þess að hugsa um eigin hag eins og Júdasi fórst í kvöldverðarboðinu, hann þóttist bera hag hinna fátæku fyrir brjósti sínu en ásældist sjálfur sjóðinn. 

Það er hvatning kirkjunnar að við gefum nú gaum að lífi Jesú Krtists boðskap hans og kærleika og að við látum það allt þvo og næra huga okkar og hjarta. Að við látum það siðferði er hann boðaði okkur móta samfélag okkar á leiðinni  út úr vandanum svo við getum komið heimilunum og þjóðarskútunni á réttan kjöl.  Til þess að við getum eignast samfélag sem öðrum verður til fyrirmyndar og fátækum til hjálpar.

Um þessar mundir ganga þúsundir ungmenna að altari kirkjunnar og staðfesta skírnarsáttmála sinn. Önnur taka við blessun trúfélags síns og enn önnur fermast borgaralegri fermingu. Stærstur hluti heils árgangs hér á landi lifir nú tímamót í lífi sínu eignast stund sem geymist í hjartanu. 

Og foreldrarnir allir eiga þá bæn eða ósk í hjarta sínu að barn þeirra muni eiga gott og farsælt líf fyrir höndum og að barnið þeirra muni verða öðrum til góðs á lífsveginum.  Og spurt er hvað getum við gert til þess. Við bendum þeim á boðskap trúarinnar og vegi hinna göfugu dyggða. Það hljótum við að gera ekki síst þegar við okkur blasir sú hryggilega staðreynd að margt er gert til að afvegaleiða þau.

Já, hver er mesta hættan sem blasir við börnum þessa lands. Eru það lítil auraráð, minna af blandi í poka eða betri nýting á fatnaði öllum. Við vitum að svarið við því er nei.

Mesta hættan felst í þeirri vá sem í peningaþorsta, alkahóli og öðrum vímuefnum býr.

Hvað er sorglegra en að vita af unglingspilti eða unglingsstúlku sem tæld hafa verið af blekkjandi auglýsingum og skrumi drekka sinn fyrsta bjór eða teyga í lungu sín kannabisreyk, sjúga í nef sér hvíta efnið eða gleypa töflur sem ummynda og afskræma umhverfi og tilfinningar allar? 

Forsætisráðherra þjóðarinnar tilkynnti í gær áform um að byggt verði nýtt fangelsi á Íslandi. Vissulega er það brýnt og að mörgu leyti mannúðarmál sé hugsað til þess aðbúnáðar sem allmargir æskumenn þessa lands hafa búið við og gæslumenn þeirra.

En þessi brýna nauðsyn verður því miður rakin til aukinnar áfengis og fíkniefnaneyslu, sem einnig leiðir til margrar annarrar ógæfu en fangelsisvistar.

Við skulum biðja þess að ekkert þeirra ungmenna sem nú vaxa úr grasi eigi eftir að sofa á bak við luktar dyr þessa fangelsis né nokkurs annars.

Líf án áfengis og líf án annarra fíkniefna er til fyrirmyndar. Það var stórkostlegt að vera vitni að viðtali við Jóhönnu Guðrúnu söngkonu okkar þar sem hún tjáði að hún væri bindindiskona og að hún þyrfti ekki að drekka eða dópa eins og sagt er til þess að finna gleðina í lífinu og ótalmargir aðrir lifa slíku lífi í gleði og þakklæti.

Bjór, brennivín eða önnur fíkniefni gefa hvorki sanna ánægju né fegurð.

Kristin trú er fagnaðarboðskapur og sá kraftur, þakklæti og gleði sem sú trú gefur er hyrningar steinn þess lífs sem við óskum börnum okkar.  

Nú er pálmasunnudagur og við heyrðum um hina fallegu þjónustu sem María veitti Jesú með þvi að bera smyrslin á fætur honum og þerra með hári sínu. Sú þjónusta og ást fyllt allt í kring um þau góðum ilmi og við heyrðum líka hvernig mannfjöldinn fagnaði honum en hafnaði síðan af því að auðmýktina og trúna skorti. 

Í huga okkar og hjarta skulum við á þessum pálmasunnudegi ganga til móts við Jesú Krist taka á móti kærleika hans og þjóna Guði í einlægni lífi okkar sjálfra til blessunar og þjóðinni til góðs.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen.


Ræða Jóhönnu og sitthvað fleira.

það kom vel fram í ræðu Jóhönnu hversu einörð hún er í því að auðlindir Íslands eigi að vera í höndum þjóðarinnar, en ekki örfárra hagsmunaaðila. Auðvitað hljótum við að taka undir slík orð, ekki síst í þeirri stöðu sem við nú erum. Um þetta hljótum við líka að hugsa í því uppgjöri sem við nú eigum.  Annnars ætla ég ekki að greina þessa ræðu frekar en hana er hægt að lesa á vef Morgunblaðsins. Ég hvet fólk til að lesa þessa ræðu og velta því fyrir sér hvort aðalmálið í ræðunni hafi verið hótanir um stjórnarslit eins og Mbl. gefur í skyn á forsíðu vefs síns.

Annars er ég núna að semja predikun fyrir útvarpsmessu sem verður í útvarpinu á morgun. Textinn er auðvitað innreið Jesú í Jerúsalem. Ég hvet alla að lesa þennan texta í Jóhanesarguðspjalli og einnig til að íhuga atburðina sem komu í kjölfarið og dymbilvikan er helguð.

Kirkjan býður upp á margvíslegt helgihald um bænadaga og páska. Það er öllum holt að nota þennan tíma til að íhuga eigið líf og tilgang þess og kristnum mönnum sérstakt tilefni til að sækja helgihaldið hvar sem þeir eru á ferð um landið þessa daga.

Stöndum sman.

Kalli Matt

 


Orð skulu standa.

Ríkisstjórnarflokkarnir gáfu báðir kosningaloforð um að breyta fiskveiðstjórnarkerfinu. Þar fóru þeir nærri hvor öðrum Og það var örugglega meining á bak við það.

Nú er spjallinu  við LÍÚ um málin lokið, sem betur fer. Enda eru þeir eru hvorki til í að semja um einn skötusel né hálfan þorsk.

Næsta vers hlýtur að vera það, að Jón ráðherra lætur makrílinn á markað eða lætur greiða fyrir hvert kíló í ríkissjóð. Þjóðinni ber að fá sinn hlut úr auðlind sinni.

Samfylkingin og Vg verða að leggja fram frumvarp til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða ef þau ætla að uppfylla loforðin sem þau gáfu þjóðinni.

Það má ekki gerast síðar en á þinginu í haust. Annars brenna þau inni.

 XD og XB munu gera allt til að eyðileggja frumvarp sem breytir kerfinu - það vitum við. Ný lög verða nauðsynlega að vera komin til framkvæmda eigi síðar en eftir eitt ár.

Tíminn líður og flokkarnir verða að mynda sem fyrst öfluga samstöðu um það frumvarp sem leggja skal fram. Það er aðeins um eina sátt að ræða. Þ.e. sáttin sem á vera hjá þjóðinni um að fiskimiðin eru sameign hennar og henni ber að fá sinn skerf og miðin eiga ekki að vera vettvangur þrælandi leiguliða stórútgerðar og banka.

Stöndum saman.

Kalli Matt


Ekki á leið í ríkið eða til dópsalans.

Ég vil hvetja alla til að vera edrú um þessa helgi, dymbilvikuna og páskana. Það er svo gott vera edrú, það er svo gott að vakna til nýs dags án þess að vera timbraður, þunnur eða hafa tæmt veskið sitt eða aukiið við skuldirnar á visakortinu.

Það er svo gott vera edrú úti í náttúrunni, borginni sinni, þorpinu sínu eða bænum sínum og teiga að sér þetta líf sem Guð hefur gefið  okkur.

Edrú öðlumst við betri yfirsýni yfir líf okkar, njótum betur gleði ástarinnar, eigum yndislegri stundir með börnunum okkar, stjórnum betur skapinu, tökum betur á vonbrigðum og vinnum betur úr sorg. Minnkum líkur á slysum og alls kyns rugli.

Ég hvet þig lesandi minn góður, hvort sem þú ert ráðherra, verkakona, prestur, þingmaður, læknir, smiður, afi eða amma, pabbi eða mamma, lögmaður, ritstjóri, ´bróðir eða systir, blaðamaður, ráuneytisstarfsmaður, öryrki, eða hvaða starfi eða stöðu þú gegnir til að lifa án áfengis næsta hálfa mánuðinn.

Ef þjóðin lifiði án áfegnis þá væri nú mun betra ástand í landinu. 

Áfengisneysla eykur ofbeldi, girnd og reiði. Áfengisneysla og önnur fíkniefnaneysla er alltaf varasöm.

Ég ætla að vera edrú í dag, hafa kollinn eins kláran og mögulega er unnt vegna krefjandi verkefna og vegna heimilis míns og starfs. 

Ég ætla að vera þakklátur fyrir lífið, taka eftir því og reyna að vera öðrum góður.

Já jafnvel þó  markviss okurvél hinna alkahólísku verðbóta vinni gegn heimili mínu.

Megi þessi dagur verða okkur öllum góður.

Stöndum (edrú) saman.

 Kalli Matt

 

 


Baráttan um lóðir sjávarins.

Þessi barátta átti sér stað í Noregi þegar fiskeldi var að byrja þar og vonadi getum við gegnið í smiðju til þeirra. Verum nú fagleg og látum ekki vini, flokksskírteini, önnur tengsl eða tækifærismennsku ráða ferðinni þegar lóðum hafsins verður úthlutað.

Þegar ég sat á þingi vakti ég athygli á því að það þyrfti að semja lög um útdeilingu þessara gæða. Ekki aðeins hvað fiskeldi allt varðar heldur líka kræklingarækt og annað í þessum dúr. Nú leggja menn kræklingaspotta um allar "jarðir". Ef við látum skeika að sköpuðu þá verður annað "auðlindarifrildi" komið á fullt í Gaulverjabæ nútímans.

Stöndum saman

Kalli Matt


mbl.is Ágreiningur um laxeldi í Arnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðareign

Líú hefur verið með fundarherferð í gangi um nauðsyn þess að viðhalda kvótakerfinu og talar um aðför að landsbyggðinni.  Nú að vera fundur á Ísafirði í kvöld - Þar sem áður iðaði höfnin af lífi vegna glæsilegs sjávarútvegs.

LÍÚ ætlar að kenna Vestfirðingum það að núverandi kerfi sé það besta sem fyrir þá hefur komið.  Á þessum fundi má ekki koma með fyrirspurnir og formaður verkalýðsfélagsins þar vestra hefur lýst vanþóknun sinni vegna þess.  Það væri annars ágætt að fá það hreint hvort ASÍ sé hinn dyggi bandamaður LÍÚ sem látið er að liggja. 

Það er m.a. gert með því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðu Íslendinga til núgildandi laga um stjórn fiskveiða. 

Samtök hafa verið stofnuð um þjóðareign í almannaþágu. Ég hvet alla til að fara inn á heimasíðuna thjodareign.is  Þessi samtök standa nú fyrir undirskriftasöfnun um þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám kvótakerfisins. Kvótakerfið hefur leitt mikið böl yfir landshluta, byggðir og fjölskyldur að ekki sé nú talað um skelfilegan þátt þess  í  hruninu.

Skrifum undir og styðjum samtökin Þjóðareign  Sýnum nú að við getum staðið saman.

Stöndum saman

Kalli Matt


Skötuselur.

Ríkisstjórnarþingmenn gáfu fögur fyrirheit um að breyta kvótakerfinu og skila þjóðinni aftur auðlind sinni. Með þessari jákvæðu aðgerð stígur hún lítið skref til að standa við loforðin. Með það vil ég óska Jóhönnu og Steingrími til hamingju. Það er við ramman reip að draga og minna viðbrögð LÍU á viðbrögð republikana í USA þegar Obama var að koma í gegn frumvarpi um almenna sjúkratryggingu.

Lifi frelsið.

Stöndum saman.

Kalli Matt

 


Þjóðin þarfnast auðlinda sinna.

Ísland þarf á sjómönnum að halda. Þeir eru einn grundvöllur þess að Ísland getið risið úr rústum græðginnar. Framlag íslenskra sjómanna til þjóðarbúsins fyrr og síðar er ómetanlegt.

Sjómenn hafa háð harðvítuga baráttu við sjóinn og fyrir kjörum sínum. Slysavarnir, vökulög, tryggingar, jólafrí, reglulegt uppgjör og margt annað  kemur upp í hugann. Þó fyrirkomulag útgerðar breytist verða alltaf til sjómenn. 

Fiskimið íslensku þjóðarinnar eru ein verðmætasta auðlind okkar.  En það nægir ekki einni þjóð að eiga auðlindir ef hún gætir þeirra ekki.  Ef  fáeinir menn ráða yfir auðlindinni  er hætta á aukinni misskiptingu og ranglæti.    

Til eru fátæk lönd sem rík eru af auðlindum. Þetta virðist mótsögn en samt er þetta nú svona. Í slíkum löndum nýtur viðkomandi þjóð í litlu auðlinda sinna því þar fara auðhringar með völdin og skeyta ekki í nokkru um hag fólksins, heldur hugsa aðeins um eiginn gróða.  

Peningaþorsti  brenglar fólk svo mikið að gott siðferði gleymist. Við súpum nú seyðið af peningaþorsta og græðgi fárra einstaklinga.

Það er brýnt að setja lög sem aflétta þeirri  einokun,  samþjöppun og klíkumyndunum sem átt hafa sér stað á síðust áratugum.

Hrunið á að verða okkur til lærdóms og þroska en ekki til þess að græðgi og eigingirni haldi áfram að vaxa í landinu.  Bankarnir fóru á hausinn, stór hluti verslunarinnar er í rauninni á hausnum, byggingariðanaðurinn er líka farinn yfir um og skuldir sjávarútvegsins eru mjög miklar og landbúnaðurinn er ekki í vænlegri stöðu. 

Hvernig eigum við að endurreisa þetta allt og byggja upp á ný? Gerum við það með því að reyna að koma öllu í fyrra horf af því að við höfum ekki kjark til þess að breyta og af því að meðvirkni og jafnvel spilling en svo mikil?

Til að skapa nýtt þarf hugrekki en ekki ótta. Byrjum á því að breyta stjórnarskránni sem er grundvöllur samfélagsreglnanna. Þar koma lýðræðis-  og auðlindamálin fyrst upp í hugann.

Umræðan sem fer nú fram um auðlindamál sjávarins snýst allt of mikið um tæknileg atriði,  en ekki hvernig hún geti nýst þjóðinni á sem víðtækastan hátt til atvinnusköpunar,  gjaldeyrisöflunar og velferðar.

Minna  er rætt um hvernig atvinnufrelsi og möguleikar til nýliðunar í sjávarútvegi eigi að vera. Þess í stað er klifað á því  að greinin sjálf verði að bera sig og engu megi breyta því þá sé voðinn vís. Alið er á ótta og skelfingu.

Við verðum að átta okkur á því að sú samþjöppun, frelsisskerðing og einokun í atvinnulífinu sem vaxið hefur á Íslandi í skjóli hagfræðikenninga um frjálsan markað hafa leitt okkur í þær mestu ógöngur sem þjóðin hefur lent í. Var frelsið sem markaðurinn fékk tekið frá einstaklingunum? Eða hvaðan kom það?

Til þess að þjóðir séu frjálsar og til þess að velsæld ríki í löndunum þá verður fólkið  sem myndar þjóðina að hafa yfirráð yfir auðlindum sínum og ákveða hvernig þær skuli nýttar öllum til hagsbóta.

Ef auðlindir eru eftirsóknarverðar munu menn ávallt sækja í þær. Og þá er mikilvægt að aðgangurinn að þeim sé veittur af ríkisvaldinu en ekki auðhringjum sem mynda leiguliðakerfi um þær. Betra er að þjóin leigi þeim sem nýta vilja á eðlilegu og sanngjörnu verði.

Núverandi stjórnarflokkar lofuðu báðir breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu og hlutu góða kosningu fyrir vikið. Mjög brýnt er að breytingatillögurnar komi sem fyrst fram því  allt verður gert til að tefja og bregða fyrir fæti.

Annað er það sem leggur stjórnvöldum skyldur á herðar en það er úrskurður mannréttindanefndar Sameinuðu Þjóðanna um að fiskveiðistjórnarkerfi okkar  sé brot  atvinnufrelsi og mannréttindum. 

Ég hvet alla landa mína til þess að hugsa alvarlega um það hvernig auðlindir lands og sjávar nýtist okkur sem best til endurreisnar og börnum okkar til góðs í framtíðinni. Milljarðarnir eiga að fara til uppbyggingar landsins en ekki til örfárra einstaklinga


Höfundur

Karl V. Matthíasson
Karl V. Matthíasson

Legg þú á djúpið.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband